Ríkissáttasemjari leggur fram miðlunartillögu – Öllum verkföllum og verkbönnum frestað

Ástráður Haraldsson settur ríkissáttasemjari hefur boðað miðlunartillögu í kjaradeilingu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem ríkissáttasemjari hélt í morgun.

Þá var jafnframt tilkynnt um á blaðamannafundinum að deiluaðilar hefðu fallist á að fresta öllum aðgerðum þar til niðurstaða úr kosningu um miðlunartillöguna liggur fyrir. Niðurstaða í kosningu um miðlunartillöguna verður ljós þann 8.mars næstkomandi.

Á vef Eflingar er fjallað um málið en þar segir að verði miðlunartillagan samþykkt þá verði hún að gildum kjarasamningi Eflingarfélaga og verkföllum lýkur. Verði henni hafnað hefjast verkfallsaðgerðir að nýju og kjaradeilan heldur áfram.

Samkomulag um lok verkfalla tekur gildi á hádegi og því getur Eflingarfólk mætt til vinnu samkvæmt ráðningarsamningi og vaktaplani frá hádegi í dag 1. mars. Þeim er bent á að hafa samband við sinn atvinnurekanda sé þörf á nánari upplýsingum um hvenær þeir eigi að mæta til vinnu. Atvinnurekendum er einnig bent á að leiðbeina starfsfólki sínu varðandi þetta.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila