Ríkissjóður afsalar íþróttamannvirkjum á Laugarvatni til Bláskógabyggðar

Ríkissjóður afsalaði í dag sveitarfélaginu Bláskógabyggð til fullrar eignar og umráða íþróttamannvirkjum á Laugarvatni sem voru í eigu ríkisins. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, undirritaði samninginn fyrir hönd ríkisins, sem gerður er með fyrirvara um samþykki Alþingis á fjárlaukalögum ársins 2017.
Mannvirkin – íþróttahús, sundlaug og íþróttamiðstöð hafa verið nýtt vegna náms í íþrótta- og heilsufræðum á Laugarvatni. Háskóli Íslands hætti kennslu í húsunum í vor og lauk þar með reksti ríkisins á byggingunum. Með samkomulaginu mun Bláskógabyggð taka við rekstri og viðhaldi bygginganna og skuldbindur sig jafnframt til að halda íþróttaaðstöðu opinni til framtíðar á meðan Menntaskólinn að Laugarvatni nýtir eignirnar í tengslum við skólahald. Sama gildir um sundlaugina eins og tök verða á en fyrirséð er að leggja þarf í talsvert miklar endurbætur og viðgerðir á henni á næstunni og er sveitarfélaginu ætlað svigrúm til að sinna þeim.
Í samkomulaginu er einnig kveðið á um skipti á landi í og við byggðakjarnann á Laugarvatni. Um er að ræða makaskipti á tilteknu landi í eigu ríkissjóðs innan byggðarinnar á Laugarvatni og landi af samsvarandi stærð í eigu Bláskógabyggðar sem liggur að nýjum þjóðvegi um Gjábakka vestan við meginbyggðina á Laugarvatni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila