Ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að Seðlabankinn lækkaði ekki vexti

Ástæða þess að Seðlabankinn ákvað að halda að sér höndum og lækka ekki vexti að svo stöddu er vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki komið skikki á fjármálin hjá sér og það má berlega sjá í rökstuðningi Seðlabankans. Þetta segir Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Jóhann segir að Seðlabankinn bendi á í rökstuðningi sínum að aðilar vinnumarkaðarins hafi þegar gert sitt en koma þurfi böndum á útgjöld ríksins og meðal annars þurfi stjórnvöld að sýna fram á að þeirra framlag til kjarasamninganna sé fjármagnað. Það geti hins vegar reynst erfitt því hér standi menn frammi fyrir stórum áskorunum.

Þarf að stórbæta heilbrigðiskerfið

Það þurfi að fjölga um þúsundir hjúkrunarrýma á næstu árum. Stórbæta þurfi heilbrigðiskerfið og auka rekstrarfé heilbrigðisstofnana auk þess þarf að tryggja að allir eigi aðgang að heimilislækni. Þarna sé um að ræða risastórar áskoranir sem kosta mikla fjármuni. Þess vegna sé mjög mikilvægt að varanleg aukin rekstrarútgjöld eins og kjarasamningarnir feli í sér séu fjármögnuð.

Hvernig á að fjármagna útgjöldin?

Hann bendir á að verkalýðshreyfingin hafi bent á hvernig mætti fjármagna útgjöldin til dæmis með því að hækka auðlindagjöld, auka skatta á þá sem ríkastir séu í samfélaginu. Hann segist sakna þess að sjá ekki tillögur að því hvernig ríkisstjórnin ætli að fjármagna hinn 80 milljarða kjarapakka og það sé líklega stærsta ástæða þess að Seðlabankinn hafi haldið að sér höndum.

Hlusta má á umfjöllunina í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila