Ríkisstjórnin kyndir undir verðbólgunni í stað þess að taka á henni

Ríkisstjórnin kyndir undir verðbólgunni í stað þess að takast á við hana með þeim afleiðingum sem því fylgir. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Eyjólfs Ármannssonar þingmanns Flokks fólksins og sérfræðings í Evrópurétti í síðdegisútvarpinu í gær en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Eyjólfur segir að þetta megi sjá best á því að farið hafi verið í krónutöluhækkanir á opinberri þjónustu og öðrum gjöldum um áramótin sem hafi beinlínis aukið verðbólguna. Þá sé ekkert verið að gera til þess að auka framboð á húsnæði auk þess sem ekki sé skorið niður heldur bætt í, til dæmis með því að stofna nýtt ráðuneyti með tilheyrandi kostnaði.

„ríkisstjórnin er ekki að beita fjármálastefnu sinni gegn verðbólgunni og það er stóra vandamálið við þetta allt saman og það má segja að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sitji einn uppi með svarta Pétur“ segir Eyjólfur.

Því sé seðlabankastjóri búinn að hækka vexti ítrekað og að mati Eyjólfs hafi hann farið offari í þeim efnum.

„en hann er að hækka vextina af því að hann sér að það er engin stefna í ríkisfjármálunum til þess að reyna að stöðva verðbólguna“

Eyjólfur segir að það að hækka vexti sé augljóslega ekki að virka og greinilega alls ekki nægjanlegt því það taki tíma til þess að láta þær hækkanir virka gegn verðbólgunni. Það sé fyrst og fremst fjármálastefnan sem eigi að keyra niður verðbólguna og það sé leið sem virki strax en sem fyrr segir er sú stefna ekki til staðar. Peningamálastefnan eigi fyrst og fremst að koma eftir á og á að vera viðbragð við fjármálastefnunni.

„stjórnvöld og Seðlabankinn eru einfaldlega að láta kostnaðinn af verðbólgunni bitna á millistéttinni og þeim lægra settu, þeir sem eru með húsnæðislán og önnur lán, þeir eiga að taka skellinn að mati stjórnvalda, ekki fjármagnseigendur og það á greinilega ekki að beita fjármálastefnunni til þess að minnka það peningamagn sem er í umferð en það er hægt að gera til dæmis með skattheimtu.

Hann segir að hægt hafi verið að fara margar aðrar leiðir til þess að draga úr verðbólgunni, til dæmis með því að lækka álögur á eldsneyti.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila