Ríkisútvarpið greiðir 250 milljónir til auglýsingastofa svo þær beini auglýsingum til RÚV

Það væri lang eðlilegast að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði sem er samkeppnismarkaður og líklegt er að Ríkisútvarpið og dagskráin yrðu mun betri fyrir vikið. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Magnúsar Ragnarssonar framkvæmdastjóra miðla hjá Símanum í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur í dag.

Fréttastofan kynningardeild fyrir auglýsingasöluna

Magnús bendir á að auglýsingasalan sé í raun rófan sem dillar hundinum, það er að segja RÚV því auglýsingasalan stýri í raun dagskrárgerð Ríkisútvarpsins. Þannig stýrir auglýsingasalan því sem sett er á dagskrá, hvenær það sé sett á dagskrá og hversu langir þættir eru og hvernig þeir séu brotnir upp.

„það er ekki langt síðan fréttir Ríkisútvarpsins voru undirlagðar af Eurovision og það voru þarna tvær vikur þar sem fréttastofan var ekkert annað en kynningardeild fyrir auglýsingasöluna“segir Magnús.

Hann segir að þetta hafi ekki verið svona áður því þá hafi verið múrar á milli frétta og dagskrárgerðar og auglýsingasölu en í dag sé það auglýsingasalan sem einfaldlega stýri Ríkisútvarpinu.

RUV með undanþágu frá EES samningnum

Aðspurður um hvort hann telji að Lilja Alfreðsdóttir menningar- og við­skipta­ráðherra sé núna að koma með raunhæfar tillögur um breytingar segir Magnús að hann voni innilega að stemmt verði stigu við þeirri ágengu auglýsingasölu sem Ríkisútvarpið stundi en hann segist ætla að leyfa sér að vera hóflega vongóður um það.

„ég er búinn að vera í þessari baráttu í tuttugu og eitthvað ár án þess að nokkuð gerist og ég veit ekki hversu margir starfshópar koma og fara, það er að segja sem hafa tekið út starfsemi Ríkisútvarpsins“ Arnþrúður benti á að RUV væri með undanþágu frá reglum EES samningsins og væri því bæði með nefskatt og á auglýsingamarkaði. Slíkt væri í raun brot á EES samningnum og væri nauðsynlegt að leysa þetta mál á þann veg að einkareknir fjölmiðlar fengju hlut af núverandi tekjustofni RUV sem væri nefskattur.

Stuðningur við einkarekna miðla plástur á annan plástur

Hann bendir á að Samkeppniseftirlitið hafi bent á að þetta væri óhæft fyrirkomulag en það gerist samt aldrei neitt. Það þurfi hugaða stjórnmálamenn til þess að fara í þetta eins og það er.

„það var breytt töluverðu með þessum stuðningi við einkarekna fjölmiðla en í rauninni var bara verið að setja plástur á annan plástur að mínu mati því það var ákveðið að styðja suma fjölmiðla og settar voru nefndir til þess að meta hvaða fjölmiðlar væru stuðningshæfir. Á sama tíma og þessi stuðningur var tekinn upp hafa framlög til Ríkisútvarpsins hækkað enn meira, þannig það er verið að reyna að laga skekkju á markaði með því að bæta við annari skekkju“segir Magnús.

RÚV greiðir 250 milljónir „undir borðið“ til auglýsingastofa

Magnús segir að Síminn sé ekki með í rafrænum mælingum Gallup og þá hafi Sýn einnig dregið sig frá þeim og eru mælingarnar stórgallaðar að mati Magnúsar. Auglýsingastofur noti þó enn þann mælikvarða að auglýsa hjá þeim sem taki þátt í rafrænu mælingum Gallup. En RÚV er nánast eini miðillinn sem sé enn þátttakandi í þeim mælingum. Hann segir þó að það sé annar hvati og verri sem hafi mikil áhrif, það séu þjónustulaun sem RÚV greiðir auglýsingastofunum undir borðið en upphæðin nemur um 250 milljónum í heild á ári. Auglýsingastofur beina svo þeim auglýsendum sem til þeirra leita til miðla sem eru með í rafræna kerfinu hjá Gallup, jafnvel þrátt fyrir að auglýsandinn hafi beðið um að vera á öllum miðlum.

„þetta eru allt að 15-20% þjónustulaun sem skýrir þá meintar vinsældir sumra miðla fram yfir aðra, þetta virkar því þannig að ef auglýsingastofa kaupir auglýsingar fyrir milljón þá fá þær kreditnótu upp á 150 þúsund á móti sem er nokkuð sem þeir sem eru utan kerfsins bjóða ekki uppá, þannig það eru víða furðulegir hvatar í þessu, ég veit ekki um neina aðra ríkisstofnun sem er tilbúin að veita svona afslátt af reikningum“

Hann segir að einmitt út af þessum þjónustulaunum berjist auglýsingastofurnar fyrir því að halda RÚV á auglýsingamarkaði og þær geti ekki hugsað sér að missa RÚV af auglýsingamarkaðnum því það sé þeirra uppáhalds viðskiptavinur.

Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að neðan og byrjar viðtalið á 31 mínútu.

Deila