Ritskoðun og þöggun er hættuleg

Jóhann Páll hefur orðið fyrir þöggun á Alþingi þegar hann hugðist spyrja spurninga um Lindarhvolsmálið. Þetta var meðal þess sem fram kom í viðtali Jóhanns Páls Jóhannssonar þingmanns Samfylkingarinnar við Arnþrúði Karlsdóttur.

Jóhann segir að hann hafi verið á dögunum á ferð í Indlandi þar sem lokað hafði verið á heimildarmynd BBC sem fjallaði um forsætisráðherra Indlands. Hann segist hafa spurt forsvarsmenn BJP út í málið og hann hafi fengið þau svör að ritskoðunin væri í þágu þjóðaröryggis og samstöðu.

„en þetta er rosalega hættulegt þegar verið er að loka á ákveðin sjónarmið og ákveðnar fréttir“

Aðspurður um hvort hann telji að verið sé að koma á slíkri ritskoðun hér af hálfu ríkisins með því að tala fyrir því setja í lög um hatursorðræðu að ekki megi gagnrýna ákveðnar stofnanir, til dæmis alþjóðaheilbrigðisstofnunina WHO segir Jóhann:

„ég myndi aldrei kvitta upp á slíkt og það má aldrei gerast og þá ganga auðvitað tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar alltaf framar“segir Jóhann.

Jóhann segir að hann sem þingmaður myndi aldrei taka þátt í að samþykkja einhvern opinn tékka á að hægt væri að kalla hvað sem er hatursorðræðu og það væri aldrei hægt að sætta sig við.

Sjálfur orðið fyrir þöggun á Alþingi

Arnþrúður bendir á að þeir sem starfi á fjölmiðlum hafi áhyggjur af því að ritskoðun og það að taka fólk úr umferð fyrir skoðanir sínar muni berast til Íslands, þetta sé umræða sem muni koma upp á þinginu innan tíðar svo framarlega sem hún verði ekki þögguð. Þá bendir Arnþrúður á að Jóhann Páll hafi sjálfur lent í þöggun á Alþingi þegar hann hugðist spyrja út í málefni Lindarhvols. Fyrst hafi forseti bannað að Jóhann gæti lagt fram spurningu um málið og síðar hafi verið kosið um hvort Jóhann mætti bera fram spurninguna en það hafi verið fellt.

„Það var þöggun og þar var það bara þannig að fyrst segir þingforseti að ég megi ekki leggja fram þessa spurningu svo ég lét reyna á það í þingsal sem hafði ekki verið gert í áratugi. Ég hélt nú kannski að þingmenn og jafnvel einhverjir í stjórnarliðinu verandi þingmenn sjálfir myndu nú sjá sóma sinn í því að standa með þessum sjálfsagða rétti þingmanna að fá að spyrja spurninga en nei nei þeir stóðu allir með þingforseta í þessu“ segir Jóhann.

Hlusta má á ítarlegri umræðu um tjáningarfrelsið og þöggun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila