Rúmlega tuttugu milljarða halli á viðskiptajöfnuði á fjórða ársfjórðungi 2022

Á fjórða ársfjórðungi 2022 var 20,2 milljarða halli á viðskiptajöfnuði við útlönd. Það er 46,6 milljörðum lakari niðurstaða en ársfjórðungnum á undan en 33,9 milljörðum betri en á sama fjórðungi árið 2021. Halli á viðskiptajöfnuði fyrir árið 2022 í heild nam 58 milljörðum samanborið við 78,4 milljarða árið á undan. Í lok ársfjórðungsins var hrein staða við útlönd jákvæð um 910 mmiljarðar eða 24,2% af vergri landsframleiðslu og batnaði um 91 milljarð eða 2,4% af vergri landsframleiðslu á fjórðungnum.

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2022 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Betri niðurstaða viðskiptajafnaðar miðað við sama ársfjórðung árið 2021 skýrist af hagstæðari niðurstöðu frumþáttatekna sem nemur 60,7 ma.kr. Að mestu leyti skýrist það af lakari afkomu fyrirtækja í erlendri eigu sem flokkast undir beina fjárfestingu. Á móti vegur meiri halli af vöruviðskiptum sem nemur 47,4 ma.kr. Þjónustuviðskipti voru 17,9 ma.kr. hagstæðari og rekstrarframlög 2,7 ma.kr.
Halli á viðskiptajöfnuði fyrir árið 2022 í heild nam 58 ma.kr. samanborið við 78,4 ma.kr. árið á undan. Halli á vöruskiptajöfnuði var 214 ma.kr. en afgangur á þjónustujöfnuði var 186,5 ma.kr. Frumþáttatekjur skiluðu 6,4 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 36,9 ma.kr. halla.

Í lok ársfjórðungsins var hrein staða við útlönd jákvæð um 910 ma.kr. eða 24,2% af vergri landsframleiðslu og batnaði um 91 ma.kr. eða 2,4% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 5.021 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 4.111 ma.kr. Á fjórðungnum batnaði staðan um 14 ma.kr. vegna fjármagnsviðskipta en erlendar eignir lækkuðu um 56 ma.kr. og skuldir um 70 ma.kr. Gengis- og verðbreytingar hækkuðu virði eigna á ársfjórðungnum um 219 ma.kr. og skulda um 119 ma.kr. og leiddu því til 100 ma.kr. betri hreinnar erlendrar stöðu. Gengi krónunnar lækkaði um 5,5% miðað við gengisskráningar-vog. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum hækkaði um 8,9% milli fjórðunga og verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði um 1%.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila