RÚV fylgir vestrænni rétttrúnaðarlínu

Ríkisútvarpið fylgir ákveðinni vestrænni línu í sinni umfjöllun sem byggir á ákveðnum sjónarmiðum rétttrúnaðar. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hauks Arnþórssonar stjórnsýslufræðings í síðdegisútvarpinu í gær en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Haukur segir RÚV fylgja svipaðri línu og The Guardian og norrænir miðlar geri það einnig að einhverju leyti. Hann segir að menn geti velt því fyrir sér hvort sú lína sem sjónarmiðin byggi á séu að öllu leyti komin af þeirri þjóðfélagsgerð sem var búin til eftir stríð.

„en við getum sagt að sósíalistar, jafnaðarmenn og frjálslyndir hægrimenn hafi búið til hinn vestræna heim eftir stríð, sérstaklega með mannréttindasáttmála SÞ árið 1948, þar með búið til og mótað andrúmsloftið um hvað sé rétt og hvað sé rangt“ segir Haukur.

Hann segir að í þessari hefð hafi svo Vesturlönd þurft að sæta einokun af hálfu ríkisútvarpa og eins hafi það verið í Bandaríkjunum sem þó hafði fjölda stöðva sem sagðar hafa verið allar með sömu fréttirnar. Þannig hafi almenningur haft mjög einsleita mynd af heiminum, mynd sem var búin til af fjölmiðlum sem aðhylltust rétttrúnað.

Hins vegar sé breytingin núna sú að með tilkomu netsins fá alls kyns skoðanir vægi sem oftar en ekki eru stimplaðar jaðarskoðanir.

„það virðist vera tiltölulega auðvelt að vekja upp tortryggni með netinu og þá koma upp skoðanir bæði með réttu og röngu sem er svo hafnað af meginstraumsfjölmiðlum og maður veltir því auðvitað fyrir sér hvað sé hægt að gera í þessu“ segir Haukur.

Deila