Sæmir ekki svo ríkri þjóð að svo margir lifa við fátæktarmörk

Tónlistarsnillingurinn Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður emeritus, Miðborgarstjóri, núna hæstvirtur alþingismaður fyrir Flokk fólksins var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur, útvarpsstjóra, í Síðdegisþættinum 28. desember. Hófst þátturinn á laginu Víst er fagur Vestmannaeyjabær sem var eitt af fyrstu lögum í Stuðmannamyndinni „Með allt á hreinu.“ Jakob hefur tengsl við Vestmannaeyjar m.a. gegnum dótturna Bryndísi Jakobsdóttur, sem fylgt hefur í tónlistarspor föður síns og gerir það gott.

Ísland í 6. sæti yfir ríkustu þjóðir heims en samt lifir tíundi hluti landsmanna við fátækt

Jakob Frímann fór yfir stöðu mála á Alþingi og minnti á, að þrátt fyrir velmegun þjóðarinnar sem skipað er í 6. sæti yfir ríkustu þjóðir heims, þá sæmi það ekki að tíund landsmanna lifi við fátækramörk. Segir Jakob það sitt fremsta hjartans mál að fínstill strengi heildarmyndarinnar, svo þjóðin losni við dökku dragbíta fátæktar. Hann minnir á, að Flokkur fólksins var stofnaður fyrir þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og flokksmenn og ekki síst formaðurinn sjálfur, Inga Snæland með eigin lífsreynslu af því hvað fátækt gerir fólki og eyðir lífsmöguleikum þess.

„Áskorun okkar alþingismanna er að stilla kerfið eftir síbreytilegum heimi, svo þeir sem minnst mega sín dragist ekki enn meira aftur úr en nú er. Hvað varð þess valdandi að laun hjóna duga ekki lengur fyrir framfærslu heimilisins?“

Bankarnir með svo stífar kröfur að ungt fólk á ekki möguleika að eignast þak yfir höfðið

Jakob Frímann ræddi um afleiðingar hrunsins:

„Fólk tók 100% bankalán og allt fór á hliðina. Bankahrunið var eiginlega fyrst og fremst gengishrun, vegna ofboðslegrar skuldsetningar. 15 þúsund fjölskyldur misstu aleiguna og ef við margföldum það með rúmlega þremur, þá sjáum við að samtals misstu allt að 50 þúsund einstaklingar þakið ofan af sér.“

Jakob Frímann telur að bankarnir setji „óheyrilega stífar kröfur til venjulegs fólks, svo stífar að ungt fólk á í erfiðleikum með að mæta þeim“ og sem setja því skorður að eignast sitt fyrsta húsnæði.

Þjóðarsauðurinn er þjóðarauðurinn

Þau Jakob og Arnþrúður ræddu auðlindir Íslands og þá ríkidóma sem lyft hefðu landinu úr fátækt síðustu hundrað árin, matarkistu sjávar og lands, orkuna, hugvitið m.fl. Jakob sagði að auður þjóðarinnar væri eign fólksins, sem byggði landið og endurspeglaði, þá vinnu og eljusemi sem einkenndi Íslendinga í aldanna rás. Þess vegna væri mikilvægt að skipting auðs væri sanngjörn svo þeir efnameiri lokuðu ekki á möguleika þeirra efnaminni.

Kerfið þungt og seigt

Jakob Frímann segir Alþingi geta orðið mun skemmtilegra og framvirkara en það er í dag með íhaldssömum reglum og venjum sem ekki virðist mega breyta. Með tiltölulega litlum breytingum mætti halda uppi upplýsingum sérsniðnum fyrir venjulegt fólk á aðgengilegan hátt í staðinn fyrir oft á tíðum langlokur á sérfræðingamáli sem fáir hafa skemmtun af. Alþingi gæti orðið skemmtimenntun allra landsmanna. Hann segir of mikla krafta fara í 650 nýjar tilskipanir frá ESB á hverju ári og býður ekki í það, ef Ísland væri ESB-meðlimur, því þá væru tilskipanirnar 2100 á ári frá ESB.

Kostnaðurinn við að útrýma fátækt væri um 35 milljarðar, sem ekki væri svo há upphæð skoðað í ljósi þess hversu hátt Ísland skorar á lista yfir ríkustu þjóðir heims.

Hlustaðu á allan þáttinn með því að smella á spilarann hér að neðan:

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila