Samfylkingin mun ekki verja Svandísi gegn vantrausti

Þó Samfylking sé með þá stefnu að vera á móti hvalveiðum þá mun Samfylkingin ekki verja Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra vantrausti. Álit Umboðsmanns Alþingis sem fjallar um ólögmætt hvalveiðibann Svandísar snýst um stjórnsýsluhluta málsins en ekki hvalveiðarnar sem slíkar. Þetta kom fram í máli Jóhanns Páls Jóhannssonar þingmanns Samfylkingarinnar í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur í dag.

Jóhann Páll segir að fyrstu skref Svandísar að hefja ákveðinn leiðangur varðandi hvalveiðarnar, með því að hafa eftirlitsmenn í hvalbátunum hafi verið eitthvað sem honum hafði hugnast ágætlega. Litið hafi út fyrir að Svandís hefði verið að skapa ákveðna umgjörð um veiðarnar sem hefði getað varpað ljósi á hvort veiðarnar væru tímaskekkja. MAST hafði gefið út skýrslu, sem að mati Jóhans Páls, hafi verið sláandi en skýrslan hafi sýnt hvaða áhrif veiðarnar hefðu á hvalina. Þá hefði Svandís sagt alveg skýrt að hún hefði engar lagaheimildir til þess að stöðva veiðarnar. Með því hafi Svandís gefið Hval hf og starfsmönnum réttmætar væntingar um að hægt væri að fara til veiða á tilsettum degi. Skyndilega hafi Svandís svo sett bann við veiðunum, í ákveðinn tíma, án alls fyrirvara daginn áður en þær áttu að hefjast.

Valdníðsla Svandísar blasti við

Jóhann Páll segir að Samfylkingin hafi ekki getað með nokkru móti stutt framgöngu ráðherra í málinu því stjórnsýslan í málinu orkaði mjög svo tvímælis. Þarna hafi verið tekin íþyngjandi ákvörðun með eins dags fyrirvara án þess að nægjanleg rannsókn hafi farið fram eins og ber að gera og án þess að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar væri fylgt.

Hann segir mikilvægt að hafa í huga að við búum í réttarríki þar sem ekki megi ganga lengra en þörf sé á til þess að ná tilteknum markmiðum og auk þess sé atvinnufrelsi verndað í stjórnarskránni.

Samfylkingin mun ekki verja Svandísi vantrausti

Hann segir alveg ljóst að Samfylkingin komi ekki til með að verja Svandísi vantrausti verði vantrauststillaga lögð fram. Jóhann bætir við að það myndi Samfylkingin heldur ekki gera ef um aðra ráðherra væri að ræða því Samfylkingin sé á móti þessari ríkisstjórn.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila