Þorsteinn Sæmundsson fyrrverandi þingmaður Miðflokksins segist taka undir með nóbelsverðlaunahafanum Joseph Stiglitz um að seðlabankastjórar í heiminum séu fastir í einhvers konar hjarðhegðum um að hækka bara vexti þegar verðbólga lætur á sér kræla í stað þess að lesa í umhverfið og greina hvað valdi henni í raun. Þetta kom fram í máli Þorsteins í þætti Péturs Gunnlaugssonar í dag.
Þorsteinn bendir á að það taki allt að 18 mánuði fyrir áhrif vaxtahækkana að koma fram og í stað þess að bíða eftir að raunveruleg áhrif þeirra kæmu fram ákváðu menn að hækka vexti sí og á með stuttu millibili. Afleiðingarnar eru þær meðal annars að stór hluti fasteignaeigenda er neyddur í raun 30 ár aftur í tímann og látin taka verðtryggð lán.
Stefnan í peningastjórnun ekki í samhengi við raunveruleikann í samfélaginu
Þorsteinn segist velta fyrir sér hvort það sé einmitt tilgangurinn með öllum þeim vaxtahækkunum að hrekja nógu marga til þess að taka verðtryggð lán og Seðlabankinn muni svo lækka vexti aftur þegar þeim tilgangi hafi verið náð.
Hann segir að grunur um að svona sé í pottinn búið hafi læðst að sér vegna þess að sú stefna sem rekin hafi verið að undanförnu í peningastjórnun sé ekki í samhengi við eitt eða neitt sem sé að gerast í samfélaginu.
Hann segir að hafa beri í huga að sú þennsla og skortur sem nú sé á húsnæðismarkaði verði ekki lagfærð á einu misseri heldur taki það sjö til tíu ár að vinda ofan af því og veltir Þorsteinn fyrir sér hvernig menn ætli að á sama tíma að vinda ofan af verðbólgunni.
Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan