Segir boltann vera hjá Svandísi og baklandi hennar

Það er Svandísar Svavarsdóttur og baklandi hennar að ráða fram úr þeirri stöðu sem er uppi eftir álit Umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að Svandís braut lög með hvalveiðibanninu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Þórarins Inga Péturssonar þingamanns Framsóknarflokksins og formanns atvinnuveganefndar Alþingis í þætti Péturs Gunnlaugssonar.

Þórarinn segir aðspurður, hvort honum finnst að Svandís eigi að stíga til hliðar, að það sé of snemmt að segja til um það. Hann segir þá ákvörðun fyrst og fremst vera hjá Svandísi sjálfri og Vinstri grænum og það sé ekki samstarfsflokkanna að ákveða örlög hennar. Hann segir að það séu mörg verkefni framundan sem þurfi að leysa og segir að stundum þurfi menn bara að anda í kviðinn og velta þeim verkefnum fyrir sér sem framundan séu.

Ákvörðun um afsögn er hjá ráðherra

Hann segir nægan tíma til að leysa málið þar til þing komi saman og ef vantrauststillaga verði lögð fram á þingi verði bara að koma í ljós hvað verði í því máli en ítrekar að ákvörðunin um afsögn sé hjá ráðherra. Hann segist ekki vilja koma fram með einhverja spádóma varðandi hvernig málið muni þróast.

Aðspurður um hvort aðrar atvinnugreinar þurfi að óttast um að ráðherra gæti tekið upp á að stöðva eða fresta starfsemi þeirra eftir eigin geðþótta segir Þórarinn að hann telji ekki svo vera. Hann segir að fram sé komið álit frá Umboðsmanni Alþingis sem skeri úr um að þetta. Stjórnsýsla sem ekki gangi upp, þá hljóti menn að taka það til sín og læra af málinu. Því geti menn alveg andað rólega.

Hlusta má á þáttinn í spilaranun hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila