Segir engan virðast þurfa að taka nokkra ábyrgð á kosningaklúðrinu í Norðvesturkjördæmi

Indriði Ingi Stefánsson, umboðsmaður lista Pírata í Suðvestur við Alþingiskosningar 2021 og umboðsmaður lista Pírata í Kópavogi við sveitarstjórnarkosningar 2022 hefur sent frá sér fréttatilkynningu í kjölfar þess að Umboðsmaður Alþingis telur sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við afgreiðslu Ríkissaksóknara vegna kæru í tengslum við framkvæmdar talningar í Norðvestur við kosningar til Alþingis haustið 2021.

Indriði leitaði til Umboðsmanns í kjölfar þess að engin stjórnvöld tóku til greina kærur hans eða kvartanir vegna framkvæmdar talningar sem að hans mati voru ótækar. Hann segir að í ljósi niðurstöðu Umboðsmanns séu litlar líkur á öðru en að málinu teljist lokið.

„Máli þar sem möguleikar umboðsmanna lista til að rækja eftirlit sitt var takmarkað, aðkoma almennings var takmörkuð og heilindum kosninga var fórnað fyrir hagsmuni stjórnvalda.“ segir í fréttatilkynningunni.

Hér að neðan má lesa fréttatilkynninguna í heild og rökstuðning Indriða ásamt skjölum málsins:

Í kjölfar þess að engin stjórnvöld tóku til greina kærur mínar eða kvartanir vegna ótækrar framkvæmdar talningar í Norðvestur við kosningar til Alþingis haustið 2021. Leitaði ég á endanum til Umboðsmanns Alþingis varðandi ákvörðun Ríkissaksóknara um að hafna því að taka málið til rannsóknar. 

Nú telur Umboðsmaður Alþingis sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við afgreiðslu Ríkissaksóknara og því litlar líkur til annars en að málinu sé í raun lokið. Máli þar sem möguleikar umboðsmanna lista til að rækja eftirlit sitt var takmarkað, aðkoma almennings var takmörkuð og heilindum kosninga var fórnað fyrir hagsmuni stjórnvalda.

Niðurstöður allra embætta ákæruvaldsins eru í raun að athæfið hafi ekki brotið á refsiákvæðum kosningalaga en í úrskurðinum er einhverra hluta vegna almennum refsiákvæðum lagana(nánar tiltekið 124. gr) sleppt. Þrátt fyrir að þegar ég vísaði málinu til Ríkissaksóknara óskaði ég sérstaklega eftir því að tekin yrði afstaða til þess ákvæðis.

Lagaákvæðið sem litið er framhjá er það ákvæði sem líklegast var að athæfi Yfirkjörstjórnar Norðverstur gæti varðað við. Þar sem kvörtunin varðaði helst það að ekki hafi verið farið að kosningalögum sem embættismönnum er skylt skv. lagaákvæðinu að viðurlögðum sektum. 

Í ljósi þess að búið er að staðfesta niðurstöðu kosninga og niðurstaða þessa máls breytir engu þar um og þar sem atburðarásin eins og hún fór fram er í raun nokkuð vel þekkt og skjalfest og í raun það eina sem þarf að gera er að meta hvort framkvæmdin hafi verið samkvæmt kosningalögum má í raun segja að það séu einungis 4 möguleikar á því hvað í raun gerðist.

  1. Allt sem var gert við talningu í Norðvestur var heimilt. Þetta er í raun fjarstæðukennt því framkvæmdin skar sig nokkuð úr hvað varðaði önnur embætti og í ljósi þess að að almennt misbauð fólki meðferðin verður það að teljast nokkuð hæpið. 
  2. Almenna refsiákvæðinu er ekki hægt að framfylgja. Það verður að teljast nokkuð óheppilegt þar sem núverandi refsiákvæði er svo til samhljóðandi. Væri það tilfellið þá hefði þurft að rökstyðja það. Í ljósi þess að það er ekki rökstutt verður þetta að teljast nokkuð ólíklegt. Hvað þetta varðar er rétt að hafa í huga að Yfirkjörstjórn NV var öll mjög fljótlega í ferlinu kominn með réttarstöðu sakbornings vegna kæru Karls Gauta Hjaltasonar.  
  3. Öll embættin gera mistök og yfirsést refsiákvæðið. Þetta verður að teljast ólíklegt í ljósi þess að ítrekað var bent á þetta ákvæði. 
  4. Að lokum er fjórði möguleikinn að einhverra hluta vegna sé verið að hlífa meðlimum Yfirkjörstjórnar Norðvestur við afleiðingum.  Þetta er að mörgu leyti versti möguleikinn þar sem það þýddi að fleiri embætti stjórnsýslunnar séu að tapa trúverðugleika en einnig einhvern vegin jafnframt sá líklegasti sem er óþægileg tilhugsun. 

Þessir möguleikar eru ekki settir fram á forsendum lögfræði heldur stærðfræði þar sem þetta eru einu rökfræðilegu möguleikarnir sem geta skýrt hvernig þessi niðurstaða á endanum varð. Í það minnsta hvað varðar þátt ákæruvaldsins.

Þáttur Alþingis er þekktur, þar var öllum ráðum beitt. Alþingi taldi sér til dæmis óheimilt að skoða gallana í heild heldur þurfti hver og einn galli að nægja til að ógilda kosninguna. Jafnframt túlkaði Alþingi ákvæði um uppkosningu á þá leið að hún væri í raun ómöguleg í framkvæmd þegar það var í raun engin ástæða til þess og vel hægt að framkvæma uppkosningu en það hefði ekki hentað. 

Allir möguleikar til að viðhalda heilindum kosninga voru útilokaðir og landið varð athlægi á alþjóðavettvangi þegar draga þurfti til baka fréttir um kosningar og að mörgu leyti sögulega niðurstöðu. 

Við þetta má bæta að það að meðlimir Yfirkjörstjórnar Norðvestur dvöldu einir með atkvæðunum í nokkra stund er gríðarlega óheppilegt, sérstaklega þar sem fyrir utanaðkomandi aðila er ómögulegt að greina á milli hvort átt hafi verið við atkvæðin eða ekki. Aðstæður sem fyrirskrift kosningalaga koma beinlínis í veg fyrir að geti komið upp en komu svo sannarlega upp og það án nokkurra viðbragða eða afleiðinga. 

Í kosningum til sveitarstjórna 2022 þurfti að gera mikið af athugasemdum við framkvæmd kosninga. Sérstaklega hvað varðar utankjörfund og í mörgum tilfellum án þess að orðið yrði við kvörtunum umboðsmanna. Má þar nefna. 

  1. Ófullnægjandi kynning á frambjóðendum og listum við utankjörfund 
  2. Breytingum á kosningalögum sem takmörkuðu rétt námsmanna erlendis til kosningaréttar 
  3. Áróður á kjörstað 
  4. Brot á persónuverndarlögum við útgáfu skilríkja umboðsmanna. 

Þessi listi er síðan ekki tæmandi og í sumum þessara tilfella gætu þau vel hafa haft áhrif á niðurstöðuna. 

Sum þessara atriða bíða niðurstöðu hjá ákæruvaldi eða öðrum eftirlitsaðilum. En miðað við þessa niðurstöðu er í raun engin ástæða til að búast við neinu úr því. Í raun er eftirlit umboðsmanna tilgangslaust ef ekki er tekið neitt mark á kvörtunum umboðsmanna og kærum þeirra vegna brota á kosningalögum. Því virðist sem eftirlit umboðsmanna þjóni bara þeim tilgangi að veita kosningum heilbrigðisvottorð ef vel gengur en ef illa gengur skipti athugasemdir ekki máli og ítrekað er reynt að því er virðist að óþörfu að hamla eftirliti umboðsmanna sem er þá í raun tilgangslaust með öllu.

Það verður því erfitt til framtíðar litið að verja það að sjálfboðaliðar séu að leggja allann þann tíma sem þarf til að sinna eftirliti umboðsmanna eins vel og þarf, það sorglegasta við þetta allt er að nær allir embættismenn sem ég hef haft þann heiður að starfa með við framkvæmd kosninga sinna sínu starfi af mikill kostgæfni og leggja mikla áherslu á að framkvæmdin sé hvort tveggja fumlaus og í fullu samræmi við lög. Það eru því mikil vonbrigði að kvartanir umboðsmanna skipti engu og séu í raun hundsaðar með öllu, þegar þær koma fram af nauðsyn. 

Niðurstaðan er því miður sú að enginn virðist þurfa að taka nokkra ábyrgð á klúðrinu í Norðvestur og engin stjórnvöld hafa nokkurt frumkvæði að því að bregðast við því þegar kosningalög eru hugsanlega brotin. Það er eftirlátið umboðsmönnum lista sem engu skiptir þótt kvarti yfir framkvæmdinni eða kæri og þeirra eftirlit virðist í raun hafa lítinn tilgang. 

Einu mögulegu lagfæringarnar eru að taka alvarlega athugasemdir umboðsmanna og að umboðsmenn hafi raunverulega möguleika til að sinna því eftirliti sem kosningalög ætla þeim. Umboðsmenn þurfa að geta leitað til aðila hratt og örugglega til að fá úr því skorið hvort farið hafi verið eftir lögunum. Að sama skapi þurfa þau sem taka að sér það mikilvæga hlutverk að sinna embættum við kosningar og þá sérstaklega þau sem koma að skipulagningu kosninganna að vera meðvituð um að því fylgir ábyrgð.

Smelltu hér til þess að sjá skjöl málsins

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila