Segir kærunefnd útlendingamála hafa farið út fyrir lagaheimildir sínar

Kærunefnd útlendingamála fór út fyrir lagaheimildir sínar þegar hún úrskurðaði á síðasta ári í tveimur málum að umsækjendur frá Venesúela um alþjóðlega vernd fengju fjögurra ára viðbótarvernd eftir höfnun Útlendingastofnunar um alþjóðlega vernd. Þetta segir Birgir Þórarinsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu í dag.

Birgir segir að á opnum fundi allsherjar og menntamálanefndar hafi formaður kærunefndar viðurkennt óbeint að þeir sem komi hingað sem flóttamenn frá Venesúela á grundvelli bágs efnahagsástands falli ekki undir þá skilgreiningu að teljast flóttamenn. Birgir bendir á að eftir úrskurði kærunefndarinnar hafi niðurstaðan spurst út til Venesúela, fordæmi hafi verið sett og nú sé svo komið að fólk frá Venesúela er fjölmennasti hópur þeirra sem hingað kemur í leit að alþjóðlegri vernd. Þá séu ferðaskrifstofur þar ytra sem geri beinlínis út á betra líf á Íslandi og greiðan aðgang að velferðarkerfinu.

Hann bendir á að í úrskurðum kærunefndarinnar sé vísað til bágs efnahagsástands í Venesúela og það sett fram sem rök fyrir viðbótarverndinni.

„mér finnst að þarna hafi nefndin farið út fyrir lagaheimildirnar og mér finnst afar mikilvægt að þetta hafi komið fram á fundinum því ég tel að þarna hafi þeir einfaldlega gengið of langt“

Hann segir að í úrskurðinum sé einnig bent á og sett fram sem rök fyrir verndinni slæmt aðgengi að fæðu og hreinu vatni sem stafi fyrst og fremst af aðgerðum og aðgerðaleysi stjórnvalda í Venesúela en ekki af utanaðkomandi þáttum eins og þurrkum.

Það á að gera einstaklingsbundið mat

Birgir vísar í hvernig kærunefndin í Noregi hafi bent á að gera þyrfti einstaklingsbundið mat í þessum efnum þar sem hluti fólks sem er í stjórnarandstöðu í Venesúela er ofsótt af stjórnvöldum..

„en hér er það þannig að bara allir sem koma frá Venesúela fá hér viðbótarvernd og ekki verið að gera þetta einstaklingsbundna mat sem að sjálfsögðu á að gera“segir Birgir.

Eiga ekki að misnota neyðarkerfið

Birgir segir mjög nauðsynlegt að farið sé eins að hér á landi og gert er í öðrum nágrannalöndum sem byggja sitt verklag á þeim upplýsingum sem hefur verið aflað, meðal annar með því að fara til Venesúela og kynna sér ástandið þar, hér hefur hins vegar enginn farið til Venesúela og kynnt sér hvernig ástandið er þar í raun og veru. Þá verði að hafa í huga að þeir sem koma hingað til lands í leit að betra lífi í efnahagslegu tilliti eigi ekki að koma á grundvelli neyðarkerfisins, enda sé það eingöngu ætlað þeim sem séu í brýnni neyð.

Hér stefnir í að gámabyggðir rísi fyrir flóttamenn

Hann segir ljóst að hér stefni í óefni vegna þess mikla fjölda sem hingað kemur því eins og kunnugt er þá sé ekkert húsnæði til svo hægt sé að hýsa fólkið sem hingað kemur. Birgir segir að ef haldið verður áfram á þessari leið sé þess skammt að bíða að hér fari að rísa gámabyggðir þar sem flóttamenn verði hýstir eins og er gert í Danmörku.

Aðspurður um hvaða viðbrögð yrðu við rísandi gámbyggðum fyrir flóttamenn segir Birgir:

„eflaust verða einhverjir ósáttir við það en hvað á annað að gera, hér er bara ekkert húsnæði til fyrir allt þetta fólk, ég fór til Grikklands og skoðaði þar svona gámabyggð en þar voru aðstæður ágætar, gámurinn samanstendur af tveimur herbergjum, litlu baðherbergi og einum eldhúskrók“segir Birgir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila