Segir stöðu Landhelgisgæslunnar til skammar fyrir ríkisstjórnina

Staða Landhelgisgæslu Íslands er til skammar fyrir ríkisstjórnina því það er frumskylda ríkisstjórnar að standa vörð um þjóðaröryggi og öflugar almannavarnir. Þetta segir Kristrún Frosadóttir formaður Samfylkingarinnar á Facebook síðu sinni í morgun.

Í færslunni segir Kristín að nú sé svo komið að Landhelgisgæslan þurfi að „selja þyrlu, flugvél eða skip“ til að eiga fyrir rekstri. Vegna vanfjármögnunar og vanrækslu á sviði öryggismála. Kristrún bendir á að samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar þurfi að styrkja rekstrargrunn Landhelgisgæslunnar um 2 milljarða til þess að standa undir þeirri þjónustu sem gæslunni er ætlað að veita hér á landi. Þá vanti að sögn Kristínar 1 milljarð í fjárlög ársins 2024 til þess að halda starfseminni óbreyttri.

Fengi gæslan þá tvo milljarða sem þarf til þess að sinna þeirri þjónustu sem Landhelgisgæslunni sé ætlað að veita væri mögulegt að mati Kristrúnar að starfrækja björgunarþyrlu á Norðausturlandi sem og fjölga áhöfnum til þess að stytta viðbragðstíma á Vestur og Suðurlandi og þannig efla sjúkraflutninga í landinu sem og björgun.

„Þessi staða er til skammar fyrir ríkisstjórnina – ekki síst Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur farið með ráðuneyti fjármála og dómsmála óslitið undanfarinn áratug“ skrifar Kristrún.

Af þessu tilefni efnir Kristrún á Alþingi í dag til umræðna um stöðu Landhelgisgæslunnar, þýðingu fyrir þjóðaröryggi og almannavarnir í landinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila