Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um loftslagsráð.
Fram kemur að markmið reglugerðarinnar sé að stuðla að því að loftslagsráð sé starfrækt með skýrum og skilvirkum hætti, í samræmi við lög um loftslagsmál.
Þá er kveðið á um í drögunum um hámarksfjölda fulltrúa í loftslagsráði sem og og hæfniviðmið sem ráðherra skal hafa til hliðsjónar við skipan fulltrúa í loftslagsráð svo fullskipað loftslagsráð endurspegli fjölbreytta þekkingu sem mun gagnast ráðinu við að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Jafnframt er kveðið á um í drögunum að loftslagsráð skuli tryggja með reglubundnum hætti, samtal hagaðila og ráðsins.
Sem fyrr segir eru sett hæfniviðmið við skipan fulltrúa í loftslagsráð en gert er ráð fyrir að fulltrúar þess hafi þekkingu á a.m.k. einum af eftirtöldum málaflokkum á sviði loftslagsmála:
- Loftslagsrétti, stjórnsýslu og stefnumótun.
- Loftslagsvísindum, áhættugreiningum og náttúruvá.
- Skipulagi og landnýtingu.
- Hagrænum og samfélagslegum greiningum.
- Samfélagslegum breytingum og réttlátum umskiptum.
- Líffræðilegum fjölbreytileika, kolefnishringrás lands og vistkerfisþjónustu
Þá kemur fram í drögunum að á grundvelli tilnefninga frá atvinnulífinu, háskólasamfélaginu, sveitarfélögum og umhverfisverndarsamtökum skuli ráðherra skipa fulltrúa til setu í loftslagsráði til fjögurra ára í senn. Ráðherra hefur þó heimild til þess að aðra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í ráðinu. Þegar ráðið er fullskipað eru fulltrúarnir níu talsins að meðtöldum formanni og varaformanni ráðsins.