Sex tilnefndir til Íslensku lýðheilsuverðlaunanna

Sex aðilar hafa nú verið tilnefndir til hinna Íslensku lýðheilsuverðlauna, sem forseti Íslands og heilbrigðisráðherra veita nú í annað sinn, á sumardaginn fyrsta. Kallað var eftir hugmyndum frá almenningi að verðugum verðlaunahöfum. Dómnefnd hefur nú tekið tillögurnar til umfjöllunar og tilnefnt þrjú í flokki einstaklinga og þrennt í flokki starfsheilda:

Tilnefningar í flokki starfsheilda:

Gleym mér ei – styrktarfélag.

Félagið styður við foreldra og aðstandendur þeirra sem missa barn á meðgöngu, í fæðingu eða á fyrstu mánuðum eftir fæðingu. Gleym mér ei var stofnað af þremur konum sem allar höfðu gengið í gegnum slíkan missi. Stuðningur í þeim aðstæðum er mikilvægur og bæði þarf að auka skilning samfélagsins á sorginni og standa vörð um hagsmuni syrgjandi foreldra. Félagið hefur stuðlað að því að bæta umgjörð og stuðning innan heilbrigðisþjónustunnar. Hjá félaginu geta foreldrar leitað stuðnings í gegnum ráðgjafasamtöl, jafningjafræðslu, samverustundir og fræðslu.

Grunnskólinn á Ísafirði.

Skólinn hefur í 30 ár staðið fyrir fjallgönguverkefni fyrir alla árganga. Á hverju hausti fer hver
bekkur í fjallgöngu sem hæfir þeirra getu innan Skutulsfjarðar. Við upphaf 10. bekkjar er farið í tveggja daga Hornstrandagöngu. Þannig hafa nemendur, sem ljúka grunnskóla, gengið á öll helstu fjöll í nágrenni. Ferðirnar eru hugsaðar til þess að nemendur læri frá ungum aldri að njóta þess að ganga á fjöll í góðum félagsskap og kynnist fjölbreyttum möguleikum til útivistar í nærumhverfi sínu.

Traustur kjarni.

Félagasamtök sem standa fyrir námskeiðum í jafningjastuðningi. Kennd er samskiptatækni sem hjálpar fólki að greina áhrif áfalla á eigin getu til að mynda uppbyggileg sambönd. Jafningjastuðningur felst meðal annars í því að nýta eigin reynslu af geðrænum áskorunum til þess að vera til staðar fyrir aðra sem á þurfa að halda. Traustur kjarni hefur einsett sér að gera námskeiðin aðgengileg öllum.

Tilnefningar í flokki einstaklinga

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar.

Guðrún Jóna er hugsjónamanneskja með mikið baráttuþrek sem hefur barist fyrir því að opna umræðu um sjálfsvíg á opinberum vettvangi. Ásamt því hefur hún unnið í mörg ár í gegnum félagasamtök að forvörnum sjálfsvíga og stuðningi við aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi. Guðrún Jóna stýrir nú verkefnum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna. Hún hefur aflað sér mikillar þekkingar á þessu sviði sem hún miðlar áfram af einstakri elju.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir knattspyrnukona.

Samhliða glæstum ferli í atvinnumennsku hefur Gunnhildur Yrsa árum saman unnið óeigingjarnt starf í þágu fatlaðra og rutt þeim braut til þátttöku í hópíþróttum. Einungis um 4% fatlaðra barna á Íslandi stunda skipulagðar íþróttir. Gunnhildur hefur alla tíð lagt áherslu á að einstaklingar með sérþarfir eigi rétt á sömu tækifærum og aðrir til að stunda íþróttir í nærumhverfi sínu og velja sína íþróttagrein sjálfir. Hún hefur unnið frumkvöðlastarf og tekið að sér að aðstoða félög innan íþróttahreyfingarinnar við að koma á fót íþróttastarfi með fötluðum.

Ólafur Elí Magnússon.

Eldhugi sem hefur unnið ötullega að hvers kyns íþróttastarfi í Rangárþingi eystra í rúm 25 ár. Bæði hefur hann sinnt íþróttakennslu í Hvolsskóla frá 1995, staðið fyrir sívinsælum íþróttaskóla fyrir 4-6 ára börn í tvo áratugi og haldið sundnámskeið á vorin. Hann hefur þjálfað íbúa í borðtennis, blaki, badminton, glímu, frjálsum og ringó svo eitthvað sé nefnt og var einn af stofnfélögum Íþróttafélagsins Dímons þar sem börn og fullorðnir í sveitarfélaginu fá tækifæri til að stunda ýmsar íþróttir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila