Síðdegisútvarpið: Fréttir vikunnar

Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson voru á sínum stað í síðdegisútvarpinu í þættinum Fréttir vikunnar hér á Útvarpi Sögu. Þau fóru um víðan völl í umfjöllun sinni en hófu þáttinn á því að segja að árið væri í raun ekki byrjað hjá sumum, margir væru heima og enn í jólafríi þannig að árið byrjaði kannski ekki fyrr en í næstu viku. „Þetta er kallað að taka á móti árinu 2024 með opnum örmum, að vera heima hjá sér,“ sagði Arnþrúður og bætti við: „Þetta er nú bara nokkuð snjallt.“

Gísli Þorgeir Kristjánsson handknattleiksmaður var í gær kjörinn íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna á Hilton hóteli í Reykjavík. Hann er eins og flestir vita sonur Kristjáns Arasonar, handboltahetju og fyrrum landsliðsmanns í handknattleik og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur alþingismanns og formanns Viðreisnar, sem er líka handboltahetja eins og eiginmaðurinn. Þau Arnþrúður og Pétur fjölluðu einnig um aðra sem voru tilnefndir og fengu verðlaun. 

Málefni Grindvíkinga  voru til umræðu en um 200 fjölskyldur hafa enn ekki fengið varanlegt húsnæði og eru í vissum skilningi á hrakhólum og í tómri óvissu. Pétur velti fyrir sér hvaða skyldur hvíldu á ríkinu í þessum náttúruhamförum. Arnþrúður benti á að það væru til sérstakir sjóðir sem hefðu verið stofnaðir til að taka á náttúruhamförum. Það hafi reynt á þetta í vetur þegar Grindvíkingar hafi þurft hjálp en það hafi komið í ljós að almenni varasjóðurinn hafi verið nánast tómur. Gamla leiðin hefði því verið farin og ákveðið að leggja auka skatta á almenning.

Þau Arnþrúður og Pétur töluðu um húsnæðisvandann, útlendingamálin, Landsdóm og ráðherraábyrgð. Þá var höfnun nemanda um inngöngu í nám í lögreglufræðum til umræðu og sagði Arnþrúður það skoðun sína að það væri verið að eyðileggja lögreglunámið frá því sem einu sinni var. 

Forsetakjörið í sumar var að sjálfsögðu til umræðu og lögðu þau áherslu á að nauðsynlegt væri að gera sér grein fyrir mikilvægi þessara kosninga. Velja þurfi forseta sem býr yfir þeim eiginleikum og eðliskostum sem geri hann hæfan til að gegna starfi sem forseti og hann sé reiðubúinn að verja íslenska hagsmuni. Margt fleira var til umræðu en hlusta má á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila