Sigmundur Davíð: Allt í einu birtust 13 ný stjórnarfrumvörp!

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra vekur athygli á því að starfsstjórnin sem nú starfar með Katrínu Jakobsdóttur virðist óvenju afkastamikil ef marka megi dagskrá morgundagsins á þingi.

Bendir Sigmundur á í færslu á Facebook að rétt eftir að ákveðið hefði verið að starfstjórnin tæki við hafi skyndilega birtst 13 ný stjórnarfrumvörp. Þetta þykir Sigmundi kynlegt sér í lagi í ljósi þess að á meðan starfsstjórnin var hefðbundin ríkisstórn hafi hún átt mjög erfitt með að koma fram með frumvörp yfirleitt.

Hvað framlagningu frumvarpanna varðar þá efist Sigmundur um að starfsstjórnin geti lagt fram öll þessi frumvörp enda sé starfsstjórninni eðli málsins samkvæmt aðeins ætlað að starfa til bráðabirgða.

Vitnar Sigmundur í bókina Stjórnskipunarréttur eftir Gunnar G. Schram og skrifar:

„Á slíkri starfsstjórn og reglulegri ríkisstjórn er nokkur eðlismunur. Starfsstjórn hefur í raun og veru fengið lausn en sér áfram, að beiðni forseta, um dagleg stjórnarstörf svo landið sé ekki með öllu stjórnlaust.”

„Ráðherrar gegna áfram starfi sem æðstu embættismenn hver á sínu sviði. Hins vegar gegna þeir ekki lengur pólitísku hlutverki með sama hætti sem regluleg ríkisstjórn. Þess verður ekki krafist af starfsstjórn [ekki er ætlast til] að hún móti sérstaka stjórnarstefnu eða standi fyrir stjórnarframkvæmdum til úrlausnar aðsteðjandi þjóðfélagsvandamálum.”

„Ráðherrar í starfsstjórn geta því vafalaust skipað í embætti, veitt leyfi, úrskurðað stjórnarleg kærumál og þess háttar. Á hinn bógin verður þeim varla talið skylt eða heimilt að taka mikilvægar pólitískar ákvarðanir nema þá að svo standi á að þær þoli enga bið.”

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila