Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fv. forsætisráðherra Íslands meðal ræðumanna á Sænsku Bókasýningunni í Stokkhólmi 20. ágúst n.k.

Það fer vel á því að ein helsta rödd lýðræðisins frá Íslandi heyrist á Sænsku Bókasýningunni í Stokkhólmi 20. ágúst næst komandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er eitt af fjölmörgum þekktum andlitum baráttufólks fyrir lýðræði og málfrelsi og verða þau mál efst á baugi í umræðum dagsins fyrir sænsku alþingis- og sveitastjórnarkosningarnar 11. september n.k.

Sænska bókasýningin safnar kjarna lýðræðisaflanna í Svíþjóð fyrir málfrelsið og lýðræðið

Sænska bókasýningin stendur vörð um málfrelsið og lýðræðið og safnaði í vor á annað þúsund rithöfundum, listamönnum, stjórnmálamönnum, fólki frá frelsisunnandi samtökum að ekki sé minnst á starfsfólk valkosta fjölmiðla sem ekki apa eftir risafjölmiðlunum. Útvarp Saga var á staðnum og verður einnig á sýningunni síðar í ágústmánuði.

20. ágúst næstkomandi er markið sett hærra með yfir 2000 gestum og verða auk bókakynninga einnig pallborðsumræður, ræðuhöld m.m. sem flutt verða í samtals 8 fundarsölum.

Einn auglýstra ræðumanna er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra Íslands og er það vel, því hann hefur staðið í ströngu gegn glóbalistunum sem flæmdu hann úr embætti forsætisráðherra á Íslandi í sömu atrennu og einnig var gerð að þáverandi forsætisráðherra Bretlands David Cameron. Sekt þeirra beggja var að velja lýðræðið sem stjórnarfar og vilja frelsi undan helsi ESB en Cameron hafði lýst yfir þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um útgöngu landsins úr ESB, BREXIT. Brexit fór fram um mánuði eftir að Sigmundi var velt úr sessi m.a. fyrir atbeina starfsmanna sænska sjónvarpsins, sem brutu grundvallarreglur blaðamennskunnar með laumufyrirsátri við forsætisráðherra Íslands. Var það lúalega spil æft í næstum ár fyrir atrennuna gegn Sigmundi Davíð og tókst að láta svo líta út sem Sigmundur Davíð væri jafningi sjálfs Pútíns í peningum reiknað, sem verður að telja afrek út af fyrir sig og hin mestu töfrabrögð því á Íslandi voru þá um 300 þúsund manns en yfir 150 milljónir í Rússlandi.

Sekt Sigmundar var að auki að hindra óprúttna náunga hrægammasjóða frá því að leggja allt Ísland undir sig í fáum bitum og heltist samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, úr þeirri lest og dagaði uppi í kennitöluhagkerfi í stað þess að standa vörð um hagsmuni landsmanna.

Þema Sænsku Bókasýningarinnar í ágúst er „Málfrelsið og komandi kosningar“ í Svíþjóð en Svíar ganga til kosninga 11. september næst komandi. Er fjöldinn allur af þjóðkunnum Svíum þátttakendur á bókasýningunni þann 20. ágúst og má búast við miklum krafti þeirra lýðræðisafla, sem mest láta að sér kveða í Svíþjóð.

Það er bæði ánægjulegt og mikill fengur fyrir Sænsku Bókasýninguna, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður einn af ræðumönnum sýningarinnar.

Sjá nánar hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila