Sigmundur Davíð: TM málið enn eitt dæmið um stjórnleysi ríkisstjórnarinnar

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM er enn eitt dæmið um stjórnleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Landsbankinn sem er í eigu ríkisins hagar sér eins og einkarekinn banki sem lætur ekki að stjórn. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Sigmundur segir málið um margt sérkennilegt svo sem yfirlýsingar fjármálaráðherra um málið, sem þá var stödd í New-York og skrifaði á Facebook og sagði kaup Landsbankans á TM myndu ekki gerast á hennar vakt.

Bankasýslan skar ríkisstjórnina úr snörunni

Hann segir að þótt stjórn bankans hafi verið meðvituð um afstöðu fjármálaráðherra og eignastefnu ríkisstjórnarinnar hafi stjórn bankans farið sínu fram. Á þessu megi sjá hvernig ríkisstjórnin hafi verið ótrúlega dugleg að gefa frá sér völd. Síðan hafi Bankasýslan komið og skorið ríkisstjórnina, tímabundið, úr snörunni með því að fresta ársfundi bankans. Það segir Sigmundur að sé þekkt hjá ríkisstjórninni, að fresta málum í stað þess að takast á við vandamálin sem koma upp.

Vildi ekki selja Landsbankann árið 2015

Í þættinum rifjaði Sigmundur upp að þegar hann var forsætisráðherra hafi það komið til tals að selja Landsbankann, það hafi verið vilji Sjálfstæðisflokksins en hann hafi talið það óráðlegt á þeim tíma eða á árinu 2015. Þá var Arionbankamálið í gangi á sama tíma þar sem Sigmundur tók á vogunarsjóðunum og tryggði að ríkið yrði ekki af verðmætum úr þeim banka.

Er hegðun Landsbankans plott?

Sigmundur velti því fyrir sér í þættinum hvort hegðun Landsbankans í þessu máli væri kannski plott og sett upp í þeim tilgangi að reyna að sannfæra ríkið um að það væri ekki góð hugmynd fyrir ríkið að eiga banka því stjórn hans myndi fara sínu fram burtséð frá því sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar vildu. Sigmundur segir málið enn eitt af þeim dæmum þar sem stofnanir ríkisins gangi um sjálfala og hlýði ekki fyrirmælum eigenda sinna.

Hlusta má á þáttinn og ítarlegri umfjöllun um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila