Sigurður Ólafsson nýr framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins

                                                                                                                                                                                                      Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins hefur ákveðið að Sigurður Ólafsson verði næsti framkvæmdastjóri ráðsins. Hann tekur við af Ingu Dóru G. Markussen sem hverfur nú til annarra starfa eftir fjögur ár í hlutverki framkvæmdastjóra.
Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þjóðþinga Grænlands, Færeyja og Íslands og var stofnað árið 1985.
Mikill áhugi var á starfinu og bárust 27 umsóknir fyrir umsóknarfrestinn 29. nóvember.
Sigurður Ólafsson hefur verið verkefnastjóri í Norræna húsinu frá 2012 þar sem hann hefur m.a. stjórnað skrifstofum beggja bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og upplýsingaskrifstofunni Norðurlönd í fókus. Hann hefur einnig haft umsjón með verkefnum Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði barna- og unglingabókmennta.
Sigurður er með meistaragráðu í alþjóðlegum þróunar- og stjórnunarfræðum frá Háskólanum í Lundi og alþjóðafræðum frá Háskólanum í Uppsölum.
Við erum mjög ánægð með þann mikla áhuga sem var á stöðunni og það gefur til kynna að vestnorræna samstarfið sé mikils metið. Það var flókið verk að velja þann hæfasta til að gegna starfi framkvæmdastjóra meðal þeirra mörgu hæfu sem sóttu um. Sigurður tekur við starfi framkvæmdastjóra 1. maí 2018„, segir Kári Páll Højgaard, formaður Vestnorræna ráðsins.
Skrifstofa Vestnorræna ráðsins hefur aðsetur á Alþingi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila