Símatíminn: Mikil óvissa um ríkisstjórnina vegna mögulegs framboðs Katrínar

Það er mikil óvissa innan ríkisstjórnarinnar vegna mögulegs framboðs Katrínar Jakobsdóttur til embættis forseta Íslands og hvort ríkisstjórnin muni hreinlega lifa það af að Katrín fari í framboð og hverfi úr ríkisstjórn. Þetta var meðal þess sem fram kom í spjalli Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í símatímanum í morgun.

Arnþrúður bendir á að það séu mörg mál sem liggi fyrir hjá ríkisstjórninni sem þurfi að klára og það sé ótækt að allt sé sett í loft upp vegna þess að forsætisráðherra bjóði sig fram. Það þurfi líka að hafa í huga hvort flokkarnir muni ná samkomulagi um þann einstakling sem tæki við af Katrínu Jakobsdóttur.

Katrín á útleið úr stjórnmálum

Pétur velti þeirri spurningu upp hver framtíð Katrínar verði ef hún bjóði sig fram en nái ekki kjöri sem forseti því ólíklegt sé að hún snúi þá til baka á þing. Arnþrúður segir það liggja nokkuð ljóst fyrir að Katrín sé á útleið og sé í raun að leita sér að útgönguleið.

Það hafi til dæmis þegar komið í ljós síðasta sumar þegar fundur Evrópuráðsins hafi verið haldinn í Hörpu. Þá þegar hafi Katrín verið að falast eftir stjórnarmennsku í Evrópuráðinu en það hafi hins vegar ekki gengið eftir. Þannig hafði Katrín, strax í fyrra, gert sér grein fyrir því að hún væri komin á endastöð í stjórnmálunum.

Hlusta má á ítarlegri umræður um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila