Í þættinum við Skákborðið sl. miðvikudag ræddi Kristján Örn Elíasson við þá Fririk Ólafsson fyrsta stórmeistara Íslands í skák og Guðmund G. Þórarinsson fyrrverandi forseta Skáksambands Íslands.
Í þættinum ræddu þeir félagar um upphaf og þróun skákíþróttarinnar í heiminum og hér á landi í gegnum tíðina og þann árangur sem náðst hefur í því að koma hér upp frækinni kynslóð framúrskarandi skákmanna.
Kosið um hvort sækja ætti um titilinn – Tveir andvígir
Friðrik Ólafsson sem er sem fyrr segir fyrsti stórmeistari Íslands í skák segir að það að öðlast þann titil hafi sannarlega ekki verið einfalt mál. Til að mynda hafi á þeim tíma ekki verið mikill vilji verið af hálfu Skáksambandsins til þess að sækja um nafnbótina.
„þegar ég var kominn á það stig í skákheiminum að það væri aðeins tímaspursmál hvenær ég yrði stórmeistari og menn voru eitthvað að ræða það hér á Íslandi. Menn voru svo að benda á að það væri ekki mikill áhugi fyrir því að sækja um titilinn fyrir mig og það fór meira segja atkvæðagreiðsla fram hjá Skáksambandinu um málið og þar voru tveir sem lögðust gegn því að sótt yrði um titilinn. Það var eitthvað mjög mikið í gangi og Skáksambandið mjög lengi að taka við sér,“ segir Friðrik.
Lítið gert úr málinu
Hann segir að Guðmundur Arnlaugsson sem þá var í Skáksambandinu hafi viljað gera frekar lítið úr málinu og látið þau orð falla að það væri betra að vera stórmeistari og standa undir því heldur en vera stórmeistari og standa ekki undir því og að titillinn væri bara eins og orða sem sett væri upp í eyður verðleikanna.
Skyggnst inn í hulinsheima listagyðjunnar
Þátturinn Við skákborðið var að þessu sinni tvöfalt lengri en vanalega. Efni þessa þáttar er fyrst og fremst skákin, eðli hennar og uppruni. Þróun skáklistarinnar og byltingarkenndar breytingar og kannski síðast en ekki síst þróun mannlegrar hugsunar. En hvað er skák og hvar er hún upprunnin? Kristján Örn dró sig að mestu í hlé og bað þá Friðrik og Guðmund um að taka spjall og skyggnast inní þessa hulinsheima listagyðjunnar.
Í lok þáttarins syngur 7. heimsmeistarinn í skák (1957-1958), Vasily Smyslov lagið Stenka Razin (Volga, Volga) ásamt karlakórnum í Tilburg („La Renaissance“). Skákborðið, platan og Staunton taflmennirnir á myndinni á milli þeirra Guðmundar og Friðriks er gjöf til Friðriks frá kúbanska byltingarleiðtoganum Fidel Castro eftir Ólympíuskákmótið í Havana á Kúbu árið 1966.
Hlusta má á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan: