Skákþátturinn: Ánægðar með Reykjavíkurskákmótið

Landsliðsskákkonurnar Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir segjast afar ánægðar með Reykjavíkurskákmótið sem heppnaðist vel þrátt fyrir að þeim finnist að þeim hefði mátt ganga betur eins og gengur. Stemningin á slíkum mótum sé einstök og gaman að sjá hversu margir sæki mótið aftur ár eftir ár. Þetta var meðal þess sem fram kom í þættinum Við skákborðið en Kristján Örn Elíasson ræddi við þær Hallgerði og Veroniku.

Þær segja ákveðinn kjarna fólks sem telji um 150 til 200 manns sem mæti á hverju ári á mótið og þær séu farnar að kynnast vel fólkinu innan þess hóps og það sé alltaf jafn gaman að taka þátt.

Erlendir keppendur fara í gullna hringinn

Þá sé ekki síður gaman að taka þátt í þeim viðburðum sem fara fram til hliðar við mótið sjálft eins og pubkviss, hraðskákmót og þá fari erlendir keppendur oft gullna hringinn sem þeim finnist afar skemmtilegt. Sjálfar hafi þær ekki prófað að fara gullna hringinn en segjast hafa þó rekist á Íslending sem hafi farið gullna hringinn og það hafi komið nokkuð á óvart.

Þær segjast finna vel fyrir því að þátttakan hafi aukist mikið undanfarin ár og það sé auðvitað jákvætt en það séu þó orðin svolítil þrengsli sem geri það að verkum að þeim finnst fjöldi keppenda orðinn aðeins of mikill miðað við það pláss sem mótinu er ætlað að vera haldið á.

Hlusta má á ítarlegri umræður um mótið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila