Skerpa á meðferð utankjörfundaratkvæða með breytingu á kosningareglugerð

Dómsmálaráðuneytið hefur birt fyrirhugaðar breytingar á reglugerð um meðferð utankjörfundaratkvæða í samráðsgátt stjórnvalda.

Í reglugerðardrögunum er kveðið á um meðferð utankjörfundaratkvæða með það að markmiði að tryggja öryggi og samræmi við móttöku og meðferð þeirra hjá kjörstjórum og kjörstjórnum sveitarfélaga sem og miðlun kjörstjóra á skráðum upplýsingum til kjörstjórnar.

Í reglugerðardrögunum segir meðal annars:

„Kjörstjóri skal hafa tiltæka innsiglaða atkvæðakassa merkta þeim sveitarfélögum sem eru í umdæmi hans.
Kjörstjóri getur ákveðið að atkvæðakassa skuli samnýta fyrir tvö eða fleiri sveitarfélög innan umdæmis hans. Atkvæðakassar sem innihalda atkvæðisbréf skulu varðveittir á öruggum stað.
Kjósandi, sem fram að kjördegi greiðir atkvæði hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem hann er á kjörskrá, skal
sjálfur setja atkvæðisbréfið í atkvæðakassa. Þeir kjósendur sem greiða atkvæði utan þess umdæmis sem þeir eru á kjörskrá, skulu sjálfir taka atkvæðisbréf sitt og koma því til kjörstjórnar þess sveitarfélags þar sem þeir eru á kjörskrá. Fram að kjördegi er kjörstjóra þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst og greiða almennt póstburðargjald undir sendinguna. Kjósandi ber að öðru leyti sjálfur kostnað af sendingu atkvæðisbréfsins. Kjósandi sem kýs hjá kjörstjóra á kjördegi skal sjálfur taka atkvæðisbréf sitt og koma því til skila.“

Þá segir einnig:

„Hverjum atkvæðakassa sem kjörstjóri afhendir kjörstjórn sveitarfélags skulu fylgja upplýsingar úr skrá
kjörstjóra um þá kjósendur sem settu atkvæðisbréf sitt í atkvæðakassann. Þar skal koma fram nafn, kennitala og lögheimili kjósanda og hvern dag kosningarathöfnin fór fram. Einnig skal þar koma fram frá hvaða kjörstjóra upplýsingarnar koma. Þegar kjörstjóri afhendir flokkuð atkvæðisbréf úr samnýttum atkvæðakassa til viðkomandi kjörstjórnar skulu þeim fylgja upplýsingar úr skrá kjörstjóra.“

Smelltu hér til þess að kynna þér málið nánar í samráðsgátt.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila