Skoða leiðir til þess að hraða orkuskiptum í flugi

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem er falið að skoða og leggja fram tillögur að því hvaða leiðir séu færar til að hraða orkuskiptum í flugi, með notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir millilandaflug.

Starfshópurinn á í störfum sínum að taka mið af stefnu stjórnvalda, sem og aðgerðaáætlunum um orkuskipti og í loftslagsmálum. 

Við vinnu sína á starfshópurinn m.a. að skoða fýsileika framleiðslu rafeldsneytis hér á landi, regluverk ESB um flugvélaeldsneyti (ReFuel og tengdri löggjöf um ETS kerfið. Þá á hópurinn að skoða endurnýjanlega orkugjafa (REDII) og áhrif þeirra á eftirspurn eftir endurnýjanlegu eldsneyti.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir Ísland í kjörstöðu hvað orkuskipti varðar:

„ Ísland er í kjörstöðu til að vinna að framgangi orkuskipta í flugi eins og á öðrum sviðum. Mikilvægt er að vanda vel til verka og skoða þær leiðir í uppbyggingu rafeldsneytisframleiðslu og innleiðingu regluverks sem eru mest hagfelldar okkar hagsmunum. Við þekkjum markmiðin og þurfum aðkomu allra geira í orkuskiptunum framundan.“

Guðrún Hafsteinsdóttir alþingismaður er formaður hópsins.

Að auki skipa starfshópinn:

Alexandra Kjærnested Arnarsdóttir, EES-sérfræðingur, tilnefnd af utanríkisráðuneytinu

Erla Sigríður Gestsdóttir, teymisstjóri orkumála í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu

Jón Ásgeir H. Þorvaldsson, verkefnisstjóri í orkuskiptum hjá Orkustofnun

Ingvi Már Pálsson, tilnefndur af menningar- og viðskiptaráðuneytinu

Orri Páll Jóhannsson, alþingismaður, tilnefndur af forsætisráðuneytinu

Valgerður B. Eggertsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af innviðaráðuneytinu

Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum sínum til ráðherra fyrir 1.júlí næstkomandi

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila