Skólaathvörf sem sinntu viðkvæmum hópi voru lögð niður

Skólaathvörf sem rekin voru í grunnskólum og sinntu nemendum sem stóðu illa félagslega voru lögð niður þar sem þau voru sögð  samrýmast ekki kennslufræði skólanna þrátt fyrir að nemendur hafi þar meðal annars sinnt heimanámi. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Grétars Marinósonar prófessors emeritus við menntavísindasvið Háskóla Íslands í þættinum Menntaspjallinu en hann var gestur Valgerðar Snæland Jónsdóttur.

Grétar segir athvörfin hafa haft það hlutverk sem fyrr segir að sinna félagslegum þörfum nemenda og þar hafi krakkarnir meðal annars sinnt heimanámi, kynnst öðrum krökkum og fengið að borða í hádeginu sem þau kannski fengu ekki annars þar sem foreldrar voru í vinnu.

 Skólarnir áttu ekki að annast uppeldi barna

Grétar segir að auk þess sem athvörfin voru ekki sögð samrýmast menntastefnu þá voru rökin þau að skólarnir ættu ekki að sinna uppeldishlutverki þó lög þess tíma lögðu áherslu á uppeldislegt hlutverk skólanna. Hann segir það hafa verið mistök að leggja þessi athvörf niður og innan skólaþjónustunnar hafi starfsfólk þar verið mjög ósátt við þá ákvörðun.

Til þess að koma til móts við lokun athvarfanna var tekinn upp svokallaður heilsdagsskóli sem er svipað úrræði en sá er gallinn á því úrræði að það er bundið við aldurinn frá sex til tíu ára og þá þurfa foreldrar sjalfir að greiða fyrir en þegar athvörfin voru starfrækt þá var sú þjónusta greidd af sveitarfélögunum. 

Heimsmarkmiðin litast af kunnuglegu stefi 

Fram kom í þættinum að hingað til hafi það viðhorf verið gegnum gangandi hvað varðar nemendur með sérþarfir þá eigi skólar alltaf að ráða við allt sem þeim sé falið. Á sínum tíma var þetta viðhorf fellt út en það sé nú komið upp aftur til dæmis megi sjá þetta viðhorf endurspeglast í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem talað er um menntun fyrir alla. Það sé þó svo að það séu ekki allir sem geti setið kennslu í hefðbundnum skólum og þurfa mikla sérkennslu. 

Hlusta má á ítarlegri umræður um sértæk úrræði í skólum og þróun þeirra í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila