Snarpir jarðskjálftar nærri Trölladyngju

Snarpir jarðskjálftar 4,5 og annar 3,9 að stærð samkvæmt fyrstu mælingum urðu um 3 kílómetra suðaustan við Keili nærri Trölladyngju á Reykjanesi fyrir stundu.

Skjálftinn fannst víða og meðal annars á höfuðborgarsvæðinu.

Í gær kom fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands að dregið hafi úr hraðanum á landrisinu við Svartsengi.

Þá sagði í tilkynningunni að það að dragi úr hraða landriss væri vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Þetta væri jafnframt sambærileg breyting á landrisi og fór að sjást í lok dags 15. desember, en þá hófst gos um þremur dögum síðar. Erfitt væri þó að fullyrða um hvort að það munstur endurtaki sig er fram kemur í tilkynningunni.

Þá segir að fyrstu merki um að kvikuhlaup sé hafið sé skyndilega aukning í skjálftavirkni, en slík merki sáust rétt áður en eldgosið hófst 18. desember.

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells.  Það er hins vegar mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Hættumatskort sem Veðurstofan gaf út 29. desember er óbreytt og gildir til 5. janúar að öllu óbreyttu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila