Sóttvarnalæknir ósammála WHO og segir Covid ekki búið

Covid er ekki búið því fólk er enn að veikjast og smit að greinast, þó tilfellin séu mun færri en í fyrra og 2021 við það þegar faraldurinn stóð sem hæst. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Guðrúnar Aspelund sóttvarnalæknis í viðtali á Útvarpi Sögu í dag en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur. Það var þann fimmta maí síðastliðinn sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsti því yfir að faraldrinum væri lokið og væri ekki ógn við heimsbyggðina. Það vekur því athygli að sóttvarnalæknir virðist ekki alveg sammála og segir Covid ekki vera búið.

Aðspurð um hvort enn sé verið að sprauta fólk gegn Covid segir Guðrún að fólk geti haft samband og fengið sprautu en ekki sé í gangi herferð í þeim tilgangi að ná til fólks, það sé helst að verið að sprauta þá sem eldri eru. Hún segir að verið sé að bíða fram á haust með að fara í sprautuherferðir um leið og bólusetning við inflúensu hefst. Þá verði áherslan á þá sem eldri eru og þá sem teljist vera áhættuhópar.

Nýtt afbrigði Omikron ekki hættulegri en önnur afbrigði

Nýtt afbrigði veirunnar sem ber heitið XBB.1.5 og undirafbrigði hennar sem WHO varaði við nú á dögunum veldur ekki meiri veikindum heldur en önnur afbrigði segir Guðrún en bætir við að auðvitað gæti eitthvað nýtt afbrigði skotið upp kollinum, það sé ekki hægt að útiloka. Það sé þó ekkert vitað um nein afbrigði sem talið sé að undirbúa þurfi fólk undir að geti komið.

WHO mun ekki stjórna farsóttarmálum landa en gefa leiðbeiningar varðandi landamæraaðgerðir

Aðspurð um hvernig málum, varðandi Ísland vegna farsóttarsamnings WHO og aðildarríkja, segir Guðrún að fyrir nokkrum árum hafi verið innleidd hér á landi Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin. Um sé að ræða ákveðnar breytingar á henni sem aðildarríkin, meðal annars Ísland taki þátt í. Hún segir að tilvísun í þessa reglugerð megi finna í sóttvarnalögum. Það sé svo sóttvarnalæknir sem sé tengiliður í reglugerðinni hvað varðar Ísland en þar komi einnig að eðli málsins samkvæmt Heilbrigðisráðuneytið.

Guðrún spurð um hvað sé bindandi fyrir Ísland í reglugerðinni sagði Guðrún:

„þetta hefur aðallega með ógnir þvert á landamæri að gera og þetta er auðvitað til þess að vernda heilsu almennings. Það sem varðar okkur til dæmis farsóttir sem geta farið á milli landa. Það er þá ákveðin tilkynningaskylda og upplýsingamiðlum sem er mjög gagnlegt“segir Guðrún.

Aðspurð um hvort það sé þess vegna sem WHO stýrði aðgerðum í Covid segir Guðrún svo ekki vera. Who komi ekki að því að stýra innan ríkja heldur komi þeir með tillögur og ábendingar.

Hún segist ekki líta svo á að ef Ísland samþykkir framsal vald í sóttvarnarmálum yfir til WHO að það þýði að Ísland þurfi að lúta boðvaldi WHO.

„þetta er ákveðið tæki sem að lönd geta nýtt til þess að styrkja og styðja sínar aðgerðir. En það er ekki þannig að WHO sé að stjórna hér og stýra hér eða í öðrum löndum. Þetta eru bara eins og aðrir alþjóðasamningar sem við tökum þátt í og er okkur til góða“segir Guðrún.

Hlusta má nánar á þáttinn hér að neðan og skoðun sóttvarnalæknis á aukaverkunum Covid sprautanna, nýju sóttvarnalögin og fleira.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila