Spilling og hlutdrægni hjá Gallup

Framkvæmd skoðanakönnunar Gallup í aðdraganda forsetakosninga hefur vakið talsverða athygli því þar stendur valið aðeins á milli fimm frambjóðenda þar sem nöfn þeirra koma fram ásamt mynd og aðrir ekki nefndir á nafn.

Þannig er sköpuð sú mynd í huga þeirra sem taka þátt í könnuninni að ekki sé um aðra frambjóðendur að ræða og enginn vafi að verklag sem þetta hafi áhrif á afstöðu kjósenda. Í annari könnun þar sem allir frambjóðendur voru með voru þeir settir í stafrófsröð en nafn eins frambjóðandans sem hefði hefði átt að vera efst var sett neðst. Nafn Arnars Þórs Jónssonar hefði átt að vera efst í röðinni en var af einhverjum ástæðum sett neðst á listann. Málið vekur upp áleitnar spurningar um heiðarleika og spillingu innan Gallup.

Stjórnarformaður Gallup í kosningateymi Katrínar

Það vekur líka athygli að Huginn Freyr Þorsteinsson er stjórnarformaður Gallup en Huginn er jafnframt eigandi þriðjungshlutar í ráðgjafafyrirtækinu Aton JL sem sér um útlit og hönnun framboðs Katrínar Jakobsdóttur til embættis forseta Íslands. Þess má geta að í nýlegri frétt DV/Eyjan kom fram að Aton JL hafi á síðasta ári fengið greiddar 100 milljónir króna frá íslenska ríkinu fyrir auglýsingar og ráðgjafarþjónustu.

Ríkið greiddi 129,4 milljónir til félags Hugins eftir að Katrín tók við

Í frétt DV kemur einnig fram að Aton JL hafi fengið talsverðar greiðslur frá hinum ýmsu ráðuneytum og ríkisstjórnum allt frá árinu 2017 þegar ríkisstjórn Katrínar tók við allt til mars á þessu ári. Greiðslurnar nema alls 129,4 milljónum króna. Af þessu má sjá að Huginn Freyr sem er stjórnarformaður Gallup er fjárhagslega tengdur við forsetaframbjóðandann Katrínu Jakobsdóttur. Hvort það hafi bein áhrif á framkvæmd skoðanakannana skal ósagt látið en eitt er víst að framangreindar fréttir tala sínu máli og aðkoma Gallup að forsetakosningunum er ekki hafin yfir vafa.

Huginn hefur komið víða við en hann var meðal annars aðstoðarmaður Steingríms Joð Sigfússonar í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur auk þess sem hann aðstoðaði Svavar Gestsson þegar Svavar var gerður að sérstökum samningamanni ríkisstjórnarinnar um Icesave samningana sem þjóðin svo hafnaði tvívegis í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila