Staðan töluvert flóknari ef boðað hefði verið til kosninga

Staðan í stjórnmálunum hefði verið töluvert flóknari ef boðað hefði verið til kosninga því þá hefði Katrín þurft að sitja í hlutverki sínu alveg fram yfir þingkosningar þar til ný ríkisstjórn hafi verið mynduð. Þetta segir Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Ef það hefði verið boðað til kosninga og Katrín þurft að sitja fram yfir þær hefði það orðið mjög óþægilegt fyrir hana í kosningabaráttunni um Bessastaði segir Haukur. Þess í stað hafi Guðni valið að láta starfstjórn duga fram að því að flokkarnir næðu saman um ríkisstjórn. Haukur segir það sérstakt að Guðni hafi skilyrt nýja ríkisstjórn við þá þrjá flokka sem sitji í starfstjórninni því leiðtogar þeirra hefðu getað og verið algerlega heimilt að leita út fyrir þann ramma sem forsetinn setti.

Katrín hefði átt að segja frá framboðinu miklu fyrr

Aðspurður um hvort það hafi komið honum á óvart að Katrín hefði boðið sig fram til forseta segir Haukur að þetta hefði komið sannarlega á óvart. Það hefði verið eðlilegra að Katrín tæki ákvörðun um þetta miklu fyrr en hún gerði og í raun hefði hún átt að segja af sér ráðherradómi um áramótin þegar hún vissi að hún ætlaði í framboð. Það sé gríðarlegur aðstöðumunur á milli hennar og annara frambjóðenda og því hefði verið eðlilegra að hún kæmi fram með sína ákvörðun miklu fyrr.

Baráttan um forsetaembættið er í raun ekki hafin

Hvað kosningarnar og skoðanakannanir í kringum varðar þá sé það afskaplega skrítið að verið sé að koma með kannanir áður en frambjóðendur hafi skilað inn meðmælendalistunum. Einnig sé það ekki gott að menn úr akademíunni eins og Ólafur Þ. Harðarson tjái sig um hverir það verði sem keppi um embættið, sér í lagi þegar kosningabaráttan er í raun ekki hafin.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila