Staðfest af Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra RÚV að Þóra Arnórsdóttir hafi verið með gögn úr síma Páls Skipstjóra

Byrlunar og símastuldsmálið á Akureyri sem Útvarp Saga hefur fjallað um áður virðist vera farið að vinda mjög upp á sig og hefur einn einstaklingur í viðbót Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður fengið stöðu sakbornings í málinu. Áður höfðu þegar fengið stöðu sakborninga Þóra Arnórsdóttir þáverandi ritstjóri Kveiks, Þórður Júlíusson blaðamaður Kjarnans, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Stundinni og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður kjarnans. Þá hafa ný gögn sem fram hafa komið í málinu meðal annars varpað ljósi á að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri RÚV vissi að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks hefði verið með síma Páls Steingrímssonar skipstjóra undir höndum en eins og áður hefur komið stal andlega veik kona tengd Páli síma Páls þar sem hann lá meðvitundarlaus á sjúkrahúsi eftir að hafa verið byrlað ólyfja. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Páls Vilhjálmssonar blaðamanns og kennara í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Páll segir að nýjustu gögnin í málinu sem hann hefur séð hafi komið fram í janúar síðastliðnum, með þeim gögnum sé það staðfest að Þóra Arnórsdóttir hafi verið með afrit af gögnum úr síma Páls skipstjóra.

„það er staðfest að Þóra Arnórsdóttir var með afritið af símanum, það er enginn vafi vegna þess að það er eitt númer sem þessi sími hefur sem er mjög nálægt því að vera númerið í síma Páls en númerið er alveg eins nema hvað að síðasti stafurinn í númerinu er annar og samkvæmt gögnum sem eru komin fram staðfesti Stefán Eiríksson að Þóra er með þennan síma“segir Páll.

Stefán mun hafa gefið þessa staðfestingu sína hjá lögreglu. Á þennan hátt hafi Þóra sem var í samskiptum við konuna sem byrlaði Páli og stal síma hans reynt að fela samskipti sín við konuna því á almennum yfirlitum símfyrirtækja er sett X í stað síðasta stafs í símanúmeri. Þannig virðist Þóra hafa reynt að láta líta svo út að símtölin sem hún hafi átt við konuna hafi verið milli konunnar og Páls Skipstjóra.

Páll bendir á að þeir blaðamenn sem eru viðriðnir málið hafa ýmist hætt hjá RÚV og farið yfir á aðra miðla en Þóra hafi hætt skyndilega án skýringa og fengið starf hjá Landsvirkjun að því er virðist mjög skömmu eftir að Stefán Eiríksson varð þess áskynja að Þóra hefði umrætt afrit af síma Páls skipstjóra undir höndum.

Páll segir að komin sé skýrari mynd á málið en áður enda séu sífellt fleiri gögn séu að koma fram, meðal annars úr Landsrétti í tengdum málum. Málið hefu ótal marga anga og hefur Páll Vilhjálmsson fylgst mjög náið með málinu og gert því skil á bloggsíðu sinni jafn óðum og ný gögn berast. Á síðu sinni bendir Páll meðal annars á að það hafi ekki verið vilji Stefáns Eiríkssonar að upplýsa lögreglu um vitneskju sína en á síðu sinni skrifar Páll.

„Fyrstu viðbrögð Stefáns útvarpsstjóra, eftir að hann fékk fyrirspurn lögreglu, var að tefja og þæfa málið. Hann bar m.a. fyrir sig ,,friðhelgi einkalífs“ Þóru. Sérkennilegar mótbárur í ljósi þess að starfsmenn Stefáns, Þóra og fleiri, eru grunaðir um að hafa stórkostlega brotið á einkalífi Páls skipstjóra með afritun á síma hans og dreifingu persónugagna.“

Síðar hafi Stefán reynt enn frekar að halda upplýsingum frá lögreglu:

„Stefán fékk lögfræðiálit og hugðist ekki veita lögreglu upplýsingar. En svo rann upp fyrir útvarpsstjóra að lögreglan var með gnótt upplýsinga. Líklega hefur Stefán, sem er fyrrum lögreglustjóri, kannað málið betur, mögulega með óformlegum samtölum, og komist að þeirri niðurstöðu að snara réttvísinnar væri komin um háls útvarpsstjóra ef hann torveldaði lögreglurannsókn á refsiverðu athæfi.“

Þá segir Páll að þáttur Inga Freys í málinu sem nýlega fékk stöðu sakbornings hafi verið meiri en að hafa eingöngu að hafa tekið á móti tölvupóstum en væntanlega muni koma í ljós innan tíðar hvernig málum hafi verið háttað. Þá sé enn á huldu hvort blaðamennirnir hafi verið komnir í samskipti við konuna sem stal síma Páls skipstjóra áður en honum var stolið.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila