Stærsta áhyggjuefnið er hitaveitukerfi Suðurnesja ef það gýs við Svartsengi

Það sem er stærsta áhyggjuefni þeirra íbúa sem búa á Suðurnesjum er hvernig hitaveitukerfi svæðisins muni reiða af er það gysi nálægt Svartsengi eða á því svæði sem kvikuinnskot er að gera vart við sig núna. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og íbúa í Grindavík í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Vilhjálmur segir að mikið sé undir og því eðlilegt að menn hafi áhyggjur af ástandinu sem kunni að skapast ef það fer að gjósa. Hann bendir á að þær jarðhræringar sem nú standi yfir sé á jaðrinum við það svæði sem virkjunin í Svartsengi stendur.

„ef kvikan kemur upp á yfirborðið á því svæði sem gerir það að verkum að ekki verði hægt að verja virkjunina. Það er reyndar búið að kortleggja hvar allar stærstu jarðýtur og gröfur landsins eru og þann tíma sem tekur að flytja þær á svæðið en hvort það takist að verja virkjunina fer bara eftir því hvar kvikan kemur upp og tíminn verður bara að leiða í ljós. Þær áhyggjur sem við höfum núna er hvort við yrðum rafmagns, vatns og heitavatnslaus ef svona ástand kemur upp „segir Vilhjálmur.

Alvarlegast ef heita vatnið fer

Hann segir að alvarlegasti vandinn sé að ef heita vatnið færi því það tæki jafnvel vikur og mánuði að koma upp varaleiðum hvað það varðar. Hann vekur athygli á að þarna sé um 30.000 manna byggð að ræða sem treysti á hitaveitu til upphitunar og þó rafmagnskerfið yrði í lagi þá gengi ekki upp að ætla að rafkynda húsin því kerfið geri einfaldlega ekki ráð fyrir slíku álagi og myndi þar af leiðandi ekki anna því.

Aðspurður um hvaða áhrif gos á þessu svæði hefði á alþjóðaflug segir Vilhjálmur að gos á þessu svæði séu af allt öðrum toga en gos í Eyjafjallajökli eða fimmvörðuhálsi. Þau gos sem verði á Suðurnesjum séu ekki sprengigos heldur hraungos sem valdi ekki hættu fyrir flugumferð. Hann bendir þó á að komist kvikan hins vegar út í sjó geti staðan verið allt önnur því þá geti orðið sprengingar og að dæmi séu um að kvikugangur á þessu svæði hafi verið kominn langleiðina með að teygja sig í átt að sjó.

Hvað íbúa í Grindavík varðar þá sé fólk vel með á nótunum hvað varðar goshættu og menn séu almennt vel undirbúnir að til goss geti komið.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila