Stóri vandinn sem heilbrigðiskerfið er að berjast við er að stjórnvöld hlusta ekki á hver vandinn sé og verið hefur í áraraðir. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Björns Leví Gunnarssonar þingmanns Pírata í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.
Björn segir að allan þann tíma sem hann hafi setið á þingi og lengur hafi ákall heilbrigðiskerfisins verið til staðar en að ekki hafi verið brugðist við þrátt fyrir að vitað sé í hverju vandinn liggi.
„það er vandamál með hjúkrunarheimilin og það er búið að vera vitað í fjöldamörg ár en ekkert er gert, reynt að byggja einhver heimili en dugar ekki til, reynt að fara í heimaþjónustu en það er samt ekki nóg, það er aldrei tekið utan um vandann og viðurkennt að núverandi lausnir að ná að sinna þessu og að þær úrbætur sem lagðar eru til munu fyrirsjáanlega ekki virka, ég hreinlega átta mig ekki á hvernig fólk kemst upp með þetta“segir Björn.
Björn bendir á að til sé mikið af starfsfólki sem ekki sé að vinna innan heilbrigðiskerfisins vegna þess að starfsaðstæður og laun séu ekki boðleg.
„og stjórnvöld neita að hlusta á að það gæti verið lausn að fá þetta fólk inn“
Hann segist ekki viss um að rétt leið til þess að hagæða innan heilbrigðiskerfisins sé að fækka millistjórnendum, því oft sé um að ræða starfsmenn sem hafi menntunina til þess að sinna sjúklingum og starfi jafnvel inni á deildum þó þeir gangi ekki um milli sjúklinga.
„það hjálpar kannski ekki að segja þeim starfsmanni upp því hann hefur kannski þekkinguna en ekki getuna vegna mikils álags“ segir Björn.
Hann segir ákveðna blekkingu felast í því þegar stjórnvöld haldi því fram að aldrei hafi verið lagt eins mikið til heilbrigðismála og nú.
„því sú innspýting nær einfaldlega ekki að halda í við þá fjölgun eldra fólks sem þurfa á þjónustu að halda og fer vaxandi“
Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan