Starf blaðamanna stöðugt erfiðara – dómharka almennings íþyngjandi

Það hafa orðið gríðarlegar breytingar á fjölmiðlum og fjölmiðlaumhverfi á síðustu árum og hafa þær breytingar ekki allar verið til batnaðar. Með tilkomu samfélagsmiðla er hver og einn sinn eigin ritstjóri og það ruglar fólk í rýminu hvað sé í raun frétt og hvað ekki. Óttinn við dómhörku almennings heldur jafnvel aftur af blaðamönnum að segja frá viðkvæmum málum. Þetta var meðal þess sem fram kom í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í dag en gestur þeirra var Þórarinn Þórarinsson blaðamaður til 25 ára.

Í þættinum var fjallað um stöðu fjölmiðla og blaðamennsku á Íslandi og þeim miklu breytingum sem orðið hafa á þeirri stöðu síðustu ár.

RÚV er bleiki fíllinn í stofunni

Þórarinn sem síðast starfaði á Fréttablaðinu sem fór í þrot á síðasta ári segir að hann sé löngu hættur að kippa sér upp við það þó fjölmiðill sem hann starfi á fari í þrot því það sé það sem hann í raun búist alltaf við. Hann segir ástandið á fjölmiðlamarkaði mjög óheilbrigt og stóri fílinn í stofunni RÚV sem sé erfitt að keppa við vegna þess mikla fjárhagslega forskots sem það hefur sem ríkisfjölmiðill. Arnþrúður bætti við að RÚV væri að auki á undanþágu frá samkeppnislögum EES samningsins sem sé algerlega óásættanleg staða.

Ekki lúxus að vera blaðamaður

Hann segir að ástandið hafi þó aldrei verið eins slæmt og nú. Það hafi ekki hingað til verið lúxus að vera blaðamaður og hann hafi ekki verið í blaðamennsku peninganna vegna og það sé í raun ekkert mikið högg að missa vinnuna á fjölmiðli því atvinnuleysisbæturnar séu ekkert mikið lægri en launin á fjölmiðlunum.

Óttinn við dómhörku heldur aftur af blaðamönnum

Þá séu störf blaðamanna orðin tölvert erfiðari í dag og það er ákveðin tilhneiging til sjálfsritskoðunar vegna dómhörkunnar sem hefur aukist gríðarlega í samfélaginu. Segir Þórarinn að það sé helst kannski það sem haldi aftur af blaðamönnum að segja frá að það sé óttinn við viðbrögðin frá samfélaginu. Þegar allt kemur til alls þá sé þó starf blaðamanns fyrst og fremst að segja frá samfélaginu eins og það er en ekki eins og menn vilji hafa það. Blaðamenn sem halda sig við sannfæringu sína og segja frá óþægilegu málunum eiga það á hættu að verða teknir fyrir persónulega. Blaðamenn í dag séu í harðri samkeppni við samfélagsmiðla þar sem hver og einn sé sinn eigin ritstjóri og það rugli fólk oft í rýminu hvað sé í raun frétt og hvað ekki.

Hlusta má á ítarlegri umræðu um fjölmiðla og blaðamennsku í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila