Starfshópur Guðlaugs Þórs vill að stjórnvöld setji opinbera stefnu um vindorku

Starfshópur um vindorku sem Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis, orku- og loftlagsráðherra skipaði að stjórnvöld settu sér sérstaka opinbera stefnu um vindorku þar sem fram kæmu helstu áherslur stjórnvalda varðandi þennan tiltekna orkunýtingarkost.

Úr þeim tillögum hefur nú verið unnið frumvarp sem sett hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda og er hægt að senda inn umsagnir um frumvarpið með því að smella hér.

Meginþættir frumvarpsins eru eftirfarandi:

• Gert er ráð fyrir að vindorka heyri áfram undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun), en gerðar verði tilteknar breytingar til að ná betur utan um séreðli vindorkunnar.

• Gert er ráð fyrir að sveitarfélög hafi víðtækari heimildir en gildir um aðra virkjunarkosti við gerð skipulagsáætlana þegar um er að ræða vindorku. Þannig verði verndar- og orkunýtingaráætlunar ekki bindandi fyrir sveitarfélög þegar kemur að virkjunarkostum í vindorku eins og gildir um vatnsafl og jarðhita. Í því felst að sveitarfélag hefur endanlegt ákvörðunarvald um það hvort slík virkjun fari inn í skipulagsáætlanir sveitarfélagsins.

• Gert er ráð fyrir að fleiri svæði landsins verði útilokuð frá vindorkunýtingu en gildir um hagnýtingu vatnsorku og jarðhita. Í því felst að hlífa mörgum af viðkvæmustu svæðum landsins við uppbyggingu af þessum toga. Auk svæða á A-hluta náttúruminjaskrár (friðlýstra svæða) þá er lagt til að vindorka verði undanskilin á svæðum á B-hluti náttúruminjaskrár, UNESCO svæðum, Ramsar-svæðum, svæðum innan marka friðlýstra menningarminja og á svæðum innan marka miðhálendislínu eins og hún er skilgreind í landsskipulagsstefnu.

• Gert er ráð fyrir að málsmeðferð virkjunarkosta í vindorku fylgi almennt sömu málsmeðferð og aðrir virkjunarkostir samkvæmt lögunum. Sú meginbreyting er hins vegar lögð til að ákveðnir virkjunarkostir í vindorku geti að uppfylltum skilyrðum sætt sérstakri málsmeðferð vegna markmiða um orkuskipti og kolefnishlutleysi. Í slíkri leið felst að ráðherra geti ákveðið, að uppfylltum skilyrðum, að tilteknir virkjunarkostir í vindorku ljúki formlegri meðferð innan verndar- og orkunýtingaráætlunar og sé vísað til sveitarfélags og annarra stjórnvalda varðandi frekari ákvörðun um leyfi til hagnýtingar þeirra. Hér er um að ræða þá virkjunarkosti, að fenginni skoðun verkefnisstjórnar rammaáætlunar, sem uppfylla skilyrði um að raska ekki um of tilteknum mikilvægum verndarhagsmunum sem gerð er nánari grein fyrir í frumvarpinu.

Til að vinna að markmiðum stjórnvalda er samhliða frumvarpinu lögð fram til umsagnar drög að sérstakri opinberri stefnu um hagnýtingu vindorku. Gert er ráð fyrir að slík stefnumörkun verði ákveðið leiðarljós til þeirra sem koma að þessu málefni, hvort sem er á vegum opinberra aðila eins og ríkis, sveitarfélaga, þ.m.t. verkefnisstjórnar rammaáætlunar, eða þeirra sem koma að slíkum málum með öðrum hætti, s.s. á hönnunar- og framkvæmdastigi virkjunarkosta í vindorku.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila