Stefán Pálsson: Stjórnmálamenn fá falleinkunn í utanríkismálum

Mikilvægi sendiráða er mest einmitt í þeim löndum sem við eigum í deilum við og því er rétt að setja spurningamerki við lokun sendiráðs Íslands í Moskvu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Stefáns Pálssonar sagnfræðings og hernaðarandstæðings í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Þá segir Stefán að ef sendiráð væru bara höfð opin í löndum sem teldust vinaríki væru menn um leið að kvitta undir það að eini tilgangur sendiherra væru glasalyftingar og kurteisisboð og vilji menn hafa það þannig ættu menn bara að viðurkenna það.

„eftir því sem samskiptin eru erfiðari milli ríkja þeim mun mikilvægari eru sendiráðin og út frá því set ég spurningamerki við þessa ákvörðun“

Ákvörðunin skyndiákvörðun vegna umræðu um kjúklinga frá Úkraínu?

Stefán segir einnig að aðdragandi ákvörðunarinnar um lokun sendiráðs Íslands í Rússlandi og tímalínan í kringum málið sé afar ótraustvekjandi. Ákvörðunin beri það ekki með sér að þarna hafi verið tekin ákvörðun burtséð frá því hvort okkur þyki hún góð eða slæm, eða að þetta hafi verið gert til þess að senda ákveðin skilaboð til Rússlands.

„heldur sér maður bara á viðbrögðum norrænu utanríkisráðherranna sem hittu Þórdísi Kolbrúnu utanríkisráðherra á fundi beint í kjölfarið að þeim fannst þetta augljóslega feigðarflan. Ekki hafi verið haft samtal við norrænu utanríkisráðherrana um málið áður en ákvörðunin hafi verið tekin, sem er algert stílbrot í íslenskri utanríkispólitík, sem hafi hingað til fylgt norðurlöndunum“

Stefán segir að þess vegna fái hann á tilfinninguna að um hafi verið að ræða skyndiákvörðun sem tekin hafi verið í kjölfar einhverrar neikvæðrar umræðu í fjölmiðlum eða samfélagsmiðlum út af einhverjum úkraínskum kjúklingum.

Hann segir að það sæti furðu að hér á landi sé utanríkisráðherra nánast einvaldur í ákvörðun um utanríkismál. Lítil hefð sé fyrir því að ræða utanríkismál á þinginu. Utanríkisráðherrar fari einfaldlega sínu fram hvað sem tautar og raular og til séu dæmi um slíkt.

“ Innrásin í Írak er eitt dæmið og Lýbíumálið einnig. Þá tók Össur Skarphéðinsson þáverandi utanríkisráðherra þá ákvörðun byggða á einhverri stemningu í þingræðum nokkrum dögum fyrr“

Þekkingarleysi stjórnmálastéttarinnar á utanríkismálum er meinsemd

„það er almennt áhuga- og þekkingarleysi íslensku stjórnmálastéttarinnar á utanríkismálum sem ég held að sé mikil meinsemd. Þetta hefur lengi verið vandamál en ég held að ástandið sé sérstaklega slæmt núna. Það er mikið áhugaleysi og menn stoppa ekki lengi við í utanríkismálanefnd og þeir sem hafa áhuga á utanríkismálum gera það eingöngu út frá Evrópusambandsmálum en ekki vegna varnar og öryggismála“

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila