Stefna að því að fatlaðir fái greiðari aðgang að stafrænum lausnum

Á fundi norrænu ráðherranefndarinnar í gær var undirrituð sameiginleg yfirlýsing norrænna ráðherra um að stefnt skuli að því að bæta aðgengi fatlaðra að stafrænum lausnum. Yfirlýsingin var undirrituð í Reykjavík en Ísland gegnir nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Í tilkynningu segir að lykilatriði sé að allir hafi aðgang að stafrænum lausnum eigi Norðurlöndin að ná þeirri framtíðarsýn að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Sérstaklega þurfi að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér stafrænar lausnir.

Stafrænar lausnir hafa hingað til ekki endilega hentað fötluðu fólki eða staðið því til boða. Þessu vilja ráðherrarnir breyta. Í yfirlýsingunni undirstrika þeir að aðgengi allra komi okkur öllum til góða.

„Við verðum að nýta tækifærin sem felast í nýsköpun, nýrri tækni, gagna- og gagnamiðlun þvert á landamæri Norðurlandanna,“ segir í yfirlýsingunni.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, undirstrikar að með þessu hafi ráðherrarnir frumkvæði að sterkara norrænu samstarfi til að efla stafræna þróun og fyrirbyggja að fatlað fólk sitji eftir í stafrænum heimi.

„Við viljum að fatlað fólk geti nýtt sér tæknina í samskiptum við fyrirtæki, stofnanir og fleiri eins og öll önnur. Fatlað fólk á ekki að sitja eftir,“ segir hann.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila