Stjórnarmenn Lindarhvols misstu minnið í Héraðsdómi

Í vikunni hófust réttarhöld í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Frígusar gegn Lindarhvoli sem sá um að selja eignir ríkisins eftir hrun. Tilurð málsins má rekja til þess að Frígurs hafði gert tilboð í eign sem Lindarhvöl seldi öðrum á lægra verði en Frígus hafði boðið og var tilboði Frígusar hafnað á þeim forsendum að tilboðið hafi borist of seint og taldi Frígus sig hafa orðið fyrir tjóni vegna höfnunar tilboðsins. Þorsteinn Sæmundsson fyrrverandi þingmaður Miðflokksins sem unnið hefur sleitulaust af því að fá upplýsingar um sölun eigna úr Lindarhvoli sat í réttarsalnum og fylgdist með málinu en Arnþrúður Karlsdóttir ræddi við Þorstein í síðdegisútvarpinu í dag.

Þorsteinn segist í raun hafa orðið fyrir áfalli yfir því sem fram kom í réttarsalnum og telur að miðað við það sem þar kom fram þá þurfi að fara fram alvöru rannsókn í Lindarhvolsmálinu. Hann segir að fram hafi komið í réttinum að lögmaður ríkisins í málinu, Steinar Þór Guðgeirsson sem einnig var vitni í málinu hafi stjórnað söluferlinu og tilboðsgerðinni. Stjórn Lindarhvols hafi aldrei séð tilboðin því þau voru send á netfang lögmannsins en á lögfræðiskrifstofunni var einnig símanúmer þar sem aldrei var svarað í.

Fyrir dómi sagðist lögmaðurinn hafa aðeins verið ráðgjafi og þegar hann var spurður fyrir dómi út í atriði sem varðaði söluna svaraði lögmaðurinn því alltaf til að hann hefði einungis verið ráðgjafi. Þorsteinn segir að í orði kveðnu hafi lögmaðurinn verið ráðgjafi en í raun og veru hafi hann verið framkvæmdastjóri sem hafi gert nokkurn veginn bara það sem honum datt í hug.

Þorsteinn vekur athygli á því að skömmu fyrir réttarhöldin hafi lögmaðurinn og stjórnin komið saman til þess að rifja upp málið undir því yfirskyni að einn stjórnarmanna væri orðinn nokkuð aldraður.

„ég ætla nú ekki að tala um þann mann þar sem hann er orðinn aldraður en það var þarna hins vegar fólk sem var í þessari stjórn, sumir allan tímann og aðrir skemur og segjast ekkert muna eftir því sem gerðist þarna, allir minnislausir og það er athyglisvert að það er einn stjórnarmaður sem kom síðust fyrir dóminn, hún var í varastjórn 2016 og sagði ítrekað þegar hún var spurð að hún hefði aðeins verið í varastjórn og hefði ekkert komið að þessum ákvörðunum. Hún hins vegar sat þarna stjórnarfundi. Hins vegar gerist það að eftir að hún verður stjórnarmaður 2018 þá man hún ekki neitt, ekki nokkurn hlut „segir Þorsteinn.

Í þættinum sagði Þorsteinn einnig frá því að fram hafi komið í réttinum að til þess að fá upplýsingar frá Lindarhvoli, meðal annars um fundargerðir og hafi Frígus sem fór fram á að fá þær afhentar í raun þurft að draga þær fram með töngum því leita hafi þurft ítrekað til úrskurðanefndar upplýsingamála. Hann segir að miðað við allt sem fram hefur komið nú fyrir dómi gefi tilefni til þess að skýrsla Sigurðar Þórðarsonar fyrrverandi ríkisendurskoðanda sem hann skrifaði um Lindarhvol og forseti Alþingis neitar að birta verði birt. Verði það ekki gert sé það orðið spurning um hvort ekki eigi að skipa rannsóknarnefnd Alþingis um Lindarhvol því slíkar nefndir hefðu verið skipaðar af mun minna tilefni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila