Stjórnendur Landsbankans höfðu ekkert umboð til þess að kaupa TM

Stjórnendur Landsbankans höfðu ekki umboð til þess að taka ákvörðun um að kaupa TM tryggingafélag. Þetta segir Þorsteinn Sæmundsson fyrrverandi þingmaður Miðflokksins en hann var gestur í þætti Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Þorsteinn segir að það komi skýrt í lögum og reglum sem varða Landsbankann að allar meiriháttar ákvarðanir skuli bera undir eiganda bankans. Það þýði að bera hefði málið upp á hluthafafundi eða koma því á framfæri við Bankasýsluna. Nú séu allir farnir að benda hver á annan. Bankaráðið bendir á Bankasýsluna sem bendir svo aftur á bankaráðið og enginn vill bera ábyrgð á kaupunum. Það er því þarft að vinda ofan af þessu og komast til botns í málinu segir Þorsteinn.

Embættismenn taka ákvarðanir fyrir stjórnendur

Hann segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem stjórnendur bankans taki ákvarðanir sem hann telji að þeir hafi ekki haft umboð til að taka ákvarðanir um. Þorsteinn segir það ákveðna lensku hér á landi að hér séu embættismenn að taka ákvarðanir í málum án þess að hafa til þess umboð.

Ráðherrar koma af fjöllum

Hann segir það athyglisvert að það virðist gerast æ ofan í æ að ráðherrar koma hreinlega af fjöllum þegar slík mál og önnur sambærileg koma upp og sér í lagi þessu máli þar sem áhugi bankans á kaupunum hafi verið ræddur um margra mánaða skeið.

Nú er Landsbankinn orðinn ríkisfyrirtæki

Þorsteinn segir að það sé athyglisvert að ráðherra tali nú um Landsbankann sem ríkisfyrirtæki því þegar Þorsteinn hafi á sínum tíma beðið um upplýsingar um íbúðir sem Landsbankinn hafi hirt af fólki, hafi því verið borið við að ekki væri hægt að veita þær upplýsingar að bankinn væri ekki ríkisfyrirtæki í þeim skilningi og heldur ekki þjónustufyrirtæki.

TM ekki eina málið sem kemur upp

Í þættinum nefndi Þorsteinn að þegar ráðist var í byggingu rándýrra höfuðstöðva Landsbankans við Reykjavíkurhöfn hafi það verið stjórn bankans sem tók þá ákvörðun og var sú ákvörðun heldur ekki borin undir eiganda bankans. Kaup TM sé því ekki eina málið þar sem bankastjórnin tekur stóra ákvörðun án umboðs.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila