Stjórnvöld þurfa að búa sig undir að eldgos geti orðið nálægt höfuðborgarsvæðinu

Nýr veruleiki blasir við í skipulagsmálum Reykvíkinga nú þegar nýtt eldsumbrotatímabil er hafið á Reykjanesskaga og stjórnvöld þurfa að búa sig undir að eldgos geti orðið nálægt höfuðborgarsvæðinu. Þetta var meðal þess sem fram kom í ræðu Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á borgarstjórnarfundi í gær.

Kjartan segir brýnt er að Reykvíkingar dragi lærdóm af atburðarás síðustu vikna og raunar síðustu ára, allt frá upphafi Fagradalselda árið 2021. Meta þurfi hugsanlega þróun jarðvirkni á Reykjanesskaga á næstu áratugum og þær hættur, sem henni geta fylgt. Í þessu gildir að vona hið besta en vera viðbúin hinu versta.

„Borgarstjórn Reykjavíkur stendur frammi fyrir nýjum veruleika í skipulagsmálum vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Á það ekki síst við um skipulag nýrrar byggðar, húsnæðismál, innviðamál og samgöngumál. Líta verður til hugsanlegrar jarðvirkni við allt skipulag og innviðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Á það ekki síst við um skipulag nýrrar íbúabyggðar, vegi og flugvelli. Áhættumeta þarf nýbyggingarsvæði og leggja áherslu á að byggja þar sem minnst hætta er á tjóni af völdum eldgosa.“sagði Kjartan.

Þá benti Kjartan á húsnæðisþörf á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist verulega eftir atburði undanfarinna vikna.

„Ekki er á þessari stundu hægt að segja til um hver framtíð byggðar í Grindavík verður en skipulagsyfirvöld verða a.m.k. að búa sig undir að einhver hluti íbúa þar kjósi að setjast að á höfuðborgarsvæðinu. Æskilegt er að borgaryfirvöld leggi áherslu á að bjóða fram lóðir til Grindvíkinga og auka uppbyggingu í borginni.“ sagði Kjartan.

Þá segir Kjartan að stburðir síðustu vikna minna á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar.

„Jarðvísindamenn útiloka ekki að kröftugt eldgos geti orðið á Reykjanesskaga, sem gæti haft alvarleg áhrif á flug og jafnvel lokað Keflavíkurflugvelli með litlum sem engum fyrirvara. Varað hefur verið við þeim möguleika að hraun renni bæði yfir Reykjanesbraut og Suðurstrandaveg en einnig gæti öskugos gert flugvöllinn óstarfhæfan um lengri eða skemmri tíma. Ef slíkar aðstæður kæmu upp væri afar slæmt ef annar flugvöllur væri ekki í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem Reykjavíkurflugvallar nyti ekki lengur við. Því ber að tryggja starfsemi Reykjavíkurflugvallar og sjá til þess að hann geti áfram gegnt hlutverki sínu sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Svo ekki sé talað um hið mikilvæga hlutverk Reykjavíkurflugvallar í þágu innanlandsflugs, sjúkraflugs og björgunarflugs.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila