Stríðið í Úkraínu afhjúpar vilja Evrópusambandsins til þess að verða herveldi. Þetta segir Haraldur Ólafsson prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands og formaður Heimssýnar félags sjálfstæðra í Evrópumálum en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu í dag.
Haraldur segir Evrópusambandið hafa sýnt afar einlægan vilja til þess að taka þátt í stríðinu í Úkraínu.
„bandalagið hefur keypt vopn í stórum stíl og sent þarna austur og þó það sé í minna mæli en Bandaríkin og Bretland hafa sent þá sýnir það að þeim langar mjög að taka þátt í þessu, það er auðvitað þannig að innan Heimssýnar eru skiptar skoðanir um þessi mál eins og önnur, menn hafa ólíkar skoðanir á NATO, Bandaríkjunum, Rússum og Kínverjum en það er þó allavega ljóst að Íslendingar og Íslenskt samfélag er í grundvallaratriðum frábrugðið þessum evrópsku samfélögum að þessu leyti. Hér hafa menn ekki stundað hernað frá landnámi ef frá er talin sturlungaöld sem eru óttalegir smámunir miðað við það sem verið hefur í Evrópu“ segir Haraldur.
Hann bendir á að í Austur Evrópu sé það þannig að þar virðist heilu þjóðirnar fylkja sér á bak við sín eigin stjórnvöld sem líti svo á að stórfelldar mannfórnir til þess að ná fram pólitískum markmiðum séu eðlilegar.
„þannig hugsa menn þetta þarna fyrir austan, þetta minnir mikið á Balkanlöndin fyrir nokkrum áratugum þar sem byrjað var á að drepa nokkur hundruð svo nokkur þúsund og svo lágu bara líkin á víð og dreif í hundruð þúsunda vís og allt var þetta í pólitískum tilgangi sem virðist vera nokkuð óljós núna, menn börðust fyrir því að draga landamæri sem þurftu að vera á réttum stað og réttu megin við einhver þorp og svo nokkrum árum seinna vildi fólkið ganga í Evrópusambandið af því þar var peningur og þá ætluðu menn að stroka út þessi landamæri sem menn voru áður tilbúnir til þess að drepa alla nágranna sína fyrir“
Aðspurður um hvað Haraldi fyndist um þá staðreynd að refsiaðgerðir sem ætlaðar voru gegn Rússum en hafi svo bitnað harkalega á Evrópu þess í stað segir Haraldur.
„það er svo margt glórulaust í þessum málum eins og oftast er, þetta er einhvern vegin endurtekning á ástandinu 1914 í Evrópu og auðvitað er Evrópusambandið að skjóta sig í fótinn, heldur betur, það er algerlega augljóst og það finnst kannski Bandaríkjamönnum bara ljómandi gott“
Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan