Stríðið í Úkraínu hluti af utanríkisstefnu Rússlands

Menn ættu ekki að hafa látið stríðsaðgerðir Rússa í Úkraínu koma sér mikið á óvart því það er einungis hluti af utanríkisstefnu þess. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Guðbjörns Guðbjörnssonar stjórnsýslufræðings og óperusöngvara í þættinum Fréttir vikunnar í gær en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Guðbjörn bendir á að eitt sinn hafi Rússland ekki verið sérlega stórt ríki en svo hafi það þanist út til allra átta. Rússland hafi til að mynda í seinni heimsstyrjöldinni fært Pólland til á heimskortinu og sölsað undir sig talsvert landsvæði í Finnlandi.

„það þarf enginn að vera hissa á þessu, sagan kennir okkur það. Þetta er og hefur verið hluti af utanríkisstefnu Rússlands alla tíð, allt frá því landið varð til. Þetta var líka í árhundruð stefna þjóðverja líka og var í gangi alveg fram á tuttugustu öld“segir Guðbjörn.

Hann segir fregnir af því að Rússlar vilji að Hvíta Rússland verði hluti af Rússlandi heldur ekkert koma sér á óvart.

„Pútín hefur lýst því að það hafi verið hans versti dagur í lífi hans þegar Sovétríkin hrundu og hann hefur alla tíð viljað sameina Hvíta Rússland og Úkraínu við Rússland og ég held að þetta sé bara eitthvað sem sé á planinu“ segir Guðbjörn.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila