Stuðningur við Úkraínu efst á baugi á utanríkisráðherrafundi NB8-ríkjanna

Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins, Úkraína og mögulegar leiðir til að efla stuðning við varnarstríð landsins á alþjóðavísu, og málefni Belarús voru í brennidepli á nýafstöðnum utanríkisráðherrafundi NB8-ríkjanna sem fram fór í Visby í Svíþjóð að þessu sinni. Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin skipa NB8-ríkjahópinn.

Utanríkisráðherrarnir voru sammála um mikilvægi viðvarandi stuðnings við varnarbaráttu Úkraínu gegn ólöglegu innrásarstríði Rússlands. Þörfin fyrir hergögn sé aðkallandi eigi Úkraína að geta varist innrásarliðinu og brýnt að leita leiða til að efla alþjóðlegan stuðning við baráttu Úkraínu og voru mögulegar leiðir til þess til umræðu á fundinum. 

Í ljósi ofangreinds, sem og stöðu heimsmálanna nú um stundir, lögðu ráðherrarnir áherslu á samstöðu bandalagsríkja í aðdraganda leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins, sem fram fer í Washington í júlí á 75 ára afmælisári bandalagsins. Þar verður lögð áhersla á að bandalagið geti með trúverðugum hætti sinnt fælingarhlutverk sínu, tekist á við áskoranir og varist þeim ógnum sem að steðja. Þá verði tengsl Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu lykilmál á leiðtogafundinum í sumar þar sem þess er vænst að bandalagið taki að sér stóraukið samræmingarhlutverk í stuðningi bandalagsríkja. 

Ráðherrarnir voru sömuleiðis sammála um að viðhalda þurfi stuðningi við lýðrsæðisöflin í Belarús undir forystu Sviatlönu Tsikhanouskayu. 

Á fundinum tilkynnti Svíþjóð ennfremur um sérstakan samnorrænan og baltneskan ráðgjafahóp sem ætlað er að veita liðsinni við aðildarumsókn Úkraínu að Evrópusambandinu. Ísland á tvo fulltrúa í hópnum.

María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu alþjóðapólitískra málefna í utanríkisráðuneytinu, sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila