Sundlaugamenning tilnefnd á skrá UNESCO

Í vikunni staðfesti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tilnefningu sundlaugamenningar á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Með umsókninni fylgdu skriflegar stuðningsyfirlýsingar frá sveitarfélögum, íþrótta- og sundfélögum, fjölda sundlaugargesta og -hópa sem deildu sögum, reynslu og viðhorfum til sundlauga og lýstu þýðingu og mikilvægi sundlaugamenningar. Án þessarar þátttöku og stuðnings hefði tilnefningin ekki orðið að veruleika.

Skrá um óáþreifanlegan menningararf heims hefur síðustu ár fest sig í sessi en þar er að finna fjölbreyttar skráningar á mikilvægri menningararfleifð víða um heim. Sem dæmi um skráningar má nefna kínverskt skuggabrúðuleikhús, grænlenskan trommudans og söng, franska baguette-brauðið og sauna-menningu í Finnlandi. Þá er handverkið við smíði súðbyrtra báta skráð á listann en að þeirri tilnefningu stóðu öll Norðurlöndin sameiginlega, þ.m.t. Ísland. Undanfarin misseri hefur staðið yfir undirbúningur að tilnefningu sundlaugamenningar á skrána en það voru Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þjóðminjasafn Íslands sem höfðu veg og vanda að þeirri vinnu.

Sundlaugamenning hefur áhrif bæði á félagslega og líkamlega heilsu

„Við Íslendingar búum svo vel að hafa greiðan aðgang að heitu vatni sem veitir okkur mikilvæg lífsgæði, þar á meðal almenningslaugarnar okkar. Sundlaugamenning skipar enda sérstakan og mikilvægan sess í daglegu lífi landsmanna. Að hittast í heitu pottunum er félagsleg tenging sem er ómetanleg og hefur svo sannarlega áhrif ekki bara líkamlega heldur andlega sem og að fara með börnunum í sund. Í sundi deilir fólk dýrmætum samverustundum þar sem snjalltæki eru skilin eftir og allir sitja við sama borð. Sundlaugamenningin okkar er bæði falleg, tímalaus og heilsueflandi og það er von mín að þessi skráning breiði út fagnaðarerindið og verði fyrsta sjálfstæða tilnefning Íslands á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf“, segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

79% fullorðinna fer í sund

Almenningssundlaugar á Íslandi skipa mikilvægan sess í hversdagslífi landsmanna. Samkvæmt nýlegri könnun kom í ljós að 79% fullorðinna fer í sund. Að auki stunda börn og ungmenni laugarnar reglulega, meðal annars með þátttöku í skólasundi. Sundlaugamenning stuðlar að bættri andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og teljast sundlaugar til mikilvægra almenningsgæða hér á landi. Um allt land hittast fjölbreyttir hópar fólks í laugum landsins sem telja sundið, laugarnar og heitu pottana ómissandi hluta af daglegu lífi.

Á Íslandi eru um 120 almenningssundlaugar og eru þær flestar reknar af sveitarfélögum. Sveitarfélögin eru því mikilvægir þátttakendur og stuðningsaðilar við tilnefninguna, ekki hvað síst Reykjavíkurborg sem rekur átta sundlaugar, en alls studdu níu sveitarfélög víðsvegar um landið tilnefninguna. Sundlaugargestir hvaðanæva af landinu tóku þátt í ferlinu og studdu tilnefninguna en stuðningsyfirlýsingar bárust m.a. frá Sundsambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands, einstaka sundfélögum, sundhópum og einstaklingum.

Nú tekur við 18 mánaða matsferli hjá UNESCO en í desember 2025 mun koma í ljós hvort sundlaugamenning verði skráð á listann.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila