Svandís braut lögin vísvitandi og hefur bakað ríkinu bótaábyrgð

Svandís Svavarsdóttir braut lögin vísivitandi þegar hún bannaði hvalveiðar fyrirvaralaust af eigin geðþótta og bakaði ríkinu bótaábyrgð og því á hún að segja af sér ráðherraembætti. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Jóns Steinars Gunnlaugssonar lögmanns og fyrrverandi hæstaréttardómara í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Alvarlegt mál þegar forsætisráðherra skrifar uppá að ráðherrar megi brjóta lög

Þá segir Jón Steinar að það sé með eindæmum að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi komið fram eftir að álit Umboðsmanns Alþingis lá fyrir um lögbrot Svandísar og varið hana og sagt hana ekki þurfa að víkja úr embætti því ráðherra ráði því sjálfir hvort þeir fari úr embætti. Hann segir það grafalvarlegt mál að forsætisráðherra skrifi upp á það að það sé í góðu lagi að ráðherrar brjóti lög með þessum hætti.

Mál Svandísar alvarlegra en Bjarna Benediktssonar

Jón Steinar bendir á að Svandís sé beinlínis búin að lýsa því yfir umbúðalaust að hún fari eftir sínum vilja þótt hann stangast á við lög í landinu. Það sé því tómt mál að tala um að staða hennar sé svipuð og staða Bjarna Benediktssonar í Íslandsbankamálinu eins og hafi verið haldið fram. Þá hafi Bjarni ekki bakað ríkinu bótaábyrgð líkt og Svandís hafi gert nú.

Svandís hefur valdið gríðarlegu fjártjóni

Hann segir að Íslendingar verði að átta sig á því að með ákvörðun sinni hafi Svandís valdið þjóðinni vísvitandi tugmilljóna ef ekki hundruð milljóna tjóni með háttarlagi sínu. Ákvörðunina hafi Svandís tekið og meðal annars ekki virt andmælarétt eins og beri að gera heldur skelli á banninu fyrirvaralaust og valdið þannig þessu eina fyrirtæki sem stundi hvalveiðar gríðarlegu tjóni.

Svandís tók ákvörðun þótt henni væri kunnugt um að það væri lögbrot

Hann segist ekki eiga von á öðru en að Hvalur hf muni fá í gegn sína bótakröfu og þá sé spurning hvort það komi til greina að ríkið muni með einhverjum hætti gera endurkröfu þeirra bóta gagnvart Svandísi en Jón segir að það sé þó enn allt óljóst. Að minnsta kosti sé það alveg ljóst að Svandís hafi tekið ákvörðunina þó hún hafi vitað að hún stæðist ekki lög og það sé stóra málið í þessu máli.

Ólöglegur görningur sama hvað ráðherrann segir

Hann segi að það muni engu máli skipta þó Svandís haldi því fram nú að hún hafi ekki brotið lög eða haldi því fram að ákvörðunin hefði verið í lagi því lögin séu svo gömul, hún verði sótt til ábyrgðar fyrir ákvörðunina samt sem áður.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

1-Hluti

2-Hluti

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila