Sveitarfélög fá styrk vegna móttöku barna á flótta frá Úkraínu

Mennta- og barnamálaráðuneytið mun leggja fé til stuðnings sveitarfélaga þar sem börn á flótta frá Úkraínu og fjölskyldur þeirra eru með búsetu. Fram kemur í tilkynningu að markmiðið sé að brúa bilið fram að hausti með tímabundnum stuðningi við móttöku barnanna og skólastarf til að stuðla að virkri þátttöku þeirra.

Stutt er við fjölbreytt náms- og félagsleg úrræði sem mæta þörfum ólíkra aldurshópa barna og ungmenna 18 ára og yngri, s.s.:

  • frístundastarf,
  • íþrótta- og æskulýðsstarf,
  • sumarskóla,
  • vinnuskóla,
  • námskeið í íslensku og íslenskri menningu,
  • lífsleikninámskeið og -verkefni,
  • samfélagsfræðslu,
  • virkni yngstu barnanna.

Í tilkynningunni segir að sveitarfélög geti sótt um fjárhagslegan stuðning sem nemur allt að 200.000 kr. á hvert barn á aldrinum 0-18 ára. Þá segir að nánari upplýsingar um stuðninginn og umsóknarferlið verða sendar sveitarfélögum á næstu vikum.

Þá mun Mennta- og barnamálaráðuneytið einnig veita sveitarfélögum stuðning með ráðgjöf og námskeiðum um móttöku barna á flótta. Ráðgjöf og námskeið verða skipulögð í samstarfi ráðuneytisins og Menntamálastofnunar við sérfræðinga háskóla og sveitarfélaga í móttöku barna á flótta.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila