Sveitarfélög hafa takmarkað stjórnsýslulegt bolmagn – frændhygli hefur áhrif á ákvarðanir

Ásdís Hlökk Thedórsdóttir aðjunkt og doktorsnemi við Háskóla Íslands og fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar, kynnti niðurstöður könnunar sem er hluti þverfræðilegrar rannsóknar sem hún vinnur að sem PhD verkefni í opinberri stjórnsýslu við Stjórnmálafræðideid HÍ, á ársfundi Byggðastofnunar í Bolungarvík í síðustu viku. Ásdís Hlökk fékk í fyrra styrk úr Byggðarannsóknarsjóði til að vinna að þessari rannsókn.

Í könnuninni var m.a. spurt um starfsumhverfi skipulagsstarfsfólks sveitarfélaga, áherslur sveitarfélaga í skipulagsmálum, þekkingu og færni í skipulagsmálum, áhrif ólíkra hópa á skipulagsmál sveitarfélaga og einnig þrýsting ólíkra aðila á skipulagsmál sveitarfélaga.

Dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla hefur áhrif á ákvarðanir

Fámenn stjórnsýsla og mikil starfsmannavelta benda til þess að takmarkað stjórnsýslulegt bolmagn sé hjá meirihluta íslenskra sveitarfélaga. Starfsreynsla sveitarstjóra og skipulagsstarfsfólks sveitarfélaga og árafjöldi sveitarstjórnarfólks í nefndarsetu er í meirihluta tilfella innan við fimm ár. Reynsla sjálfstætt starfandi skipulagsráðgjafa er hins vegar í meirihluta tilfella lengri en 14 ár.

Fram kom einnig að talsverður munur er á menntunarstigi kjörinna fulltrúa og skipulagsstarfsfólks sveitarfélaganna og skipulagsráðgjafa sem sinna ráðgjöf til sveitarfélaga. Þá kemur fram að margir í hópi skipulagsstarfsfólks og skipulagsráðgjafa segjast  þekkja dæmi um að frændsemi, kunningsskapur eða pólitísk fyrirgreiðsla hafi haft áhrif á skipulagsákvarðanir sveitarfélaga.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila