Sýknaðir í hryðjuverkamálinu – fá dóm fyrir brot á vopnalögum

Tveir ungir karlmenn sem sakaðir voru um og ákærðir fyrir að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk í Reykjavík voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag af ákæru um tilraun til hryðjuverka. Mennirnir fá hins vegar dóma fyrir brot gegn vopnalögum.

Dómur héraðsdóms hefur ekki enn verið birtur á vef dómstólsins en samkvæmt upplýsingum verður hann birtur síðar í dag eða á morgun.

Samkvæmt dómnum sem kveðinn var upp í morgun voru mennirnir sem fyrr segir sýknaðir af ákæru um tilraun til hryðjuverka en fá báðir dóm fyrir brot gegn vopnalögum. Annar þeirra fékk 24 mánaða fangelsisdóm og hinn fékk 18 mánaða dóm fyrir hlutdeild sína í broti hins.

Mennirnir voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í september árið 2022 og var hald lagt á mikið magn prentaðra vopna sem lögregla taldi að nota ætti við að fremja hin meintu hryðjuverk. Mennirnir komu báðir að prentun vopnanna en létu hafa eftir sér fyrir dómi á sínum tíma að vopnin væri í raun mjög léleg og að auki voru mörg þeirra ósamsett.

Þegar mennirnir voru handteknir hafði lögregla hlerað samskipti þeirra um nokkra hríð og mat lögreglan að samskipti þeirra bentu til þess að þeir væru komnir vel á veg með að skipuleggja hryðjuverk.

Það vekur athygli að þáttur föður ríkislögreglustjóra sem er umsvifamikill vopnasali hér á landi var lítið rannsakaður en annar sakborninga benti á að hann hefði keypt vopn af föður ríkislögreglustjóra.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila